Kolbrún Halldórsdóttir umhverfisráðherra segir sína hugmynd þá að Íslendingar gangist undir sömu skuldbindingar og lönd Evrópusambandsins í loftslagsmálum og að Ísland verði hluti af viðskiptakerfi ESB með losunarheimildir gróðurhúsalofttegunda.
Þetta kom fram í umræðum utan dagskrár á Alþingi í dag. Málshefjandinn, þingmaðurinn Illugi Gunnarsson, skoraði þar á Kolbrúnu að undirbúa sig af krafti fyrir loftslagsráðstefnuna sem haldin verður í Kaupmannahöfn undir lok þessa árs. Sagði Illugi að sækja þyrfti hart að fá áfram undanþáguákvæði fyrir Ísland vegna losunarheimilda, enda þurfi að senda skýr skilaboð út fyrir landsteinana um að hér eigi áfram að verða þeir möguleikar sem felist í ákvæðinu, og að Íslendingar ætli áfram að nýta orkuauðlindir sínar.
Kolbrún fór yfir stefnumótun íslenskra stjórnvalda í málinu hafa þróast samhliða hinum alþjóðlegu loftslagsviðræðum. Núverandi stefna, sem mótuð hafi verið að fyrri ríkisstjórn, miðist við að dregið verði úr losun gróðurhúsalofttegunda um 50-75% fram til 2050. Til þess þurfi tvennt, þ.e. að þróuð ríki dragi úr losun um 25-40% miðað við losun ársins 1990 fyrir árið 2020. Hins vegar að þróunarríki byrji að takmarka aukningu sinnar losunar.
Með þessa stefnu að leiðarljósi hafi Íslendingar skipað sér í flokk með ríkjum, þ.m.t. ESB ríkjum, sem vilji taka af festu á málinu.
Illugi sagði hins vegar mikinn þingmeirihluta fyrir því að íslensk stjórnvöld beiti sér fyrir áframhaldandi varðveislu íslenska ákvæðis. Sagði hann nauðsynlegt að ráðherrann og ríkisstjórnin virði þann þingvilja. Enn sé tími til þess þótt hann sé skammur.