Íbúar fá að fylgjast með

Endurnýja á Klapparstíg frá Laugavegi að Skólavörðustíg.
Endurnýja á Klapparstíg frá Laugavegi að Skólavörðustíg.

Klapparstígur, á kaflanum frá Laugavegi að Skólavörðustíg, verður endurnýjaður og fegraður á næstu mánuðum. Af því tilefni var húseigendum og íbúum í næsta nágrenni við framkvæmdasvæðið boðið til kynningarfundar á Reykjavíkurtorgi Borgarbókasafnsins í Grófarhúsi í gær.

Á fundinum kom fram sterkur vilji íbúa og hagsmunaaðila að fá að fylgjast náið með gangi framkvæmdarinnar, samkvæmt frétt frá Framkvæmda- og eignasviði Reykjavíkurborgar. Drög að verk- og tímaáætlun vegna endurgerðar Klapparstígs voru aðgengileg þegar gestir mættu til fundarins.

Ámundi Brynjólfsson skrifstofustjóri mannvirkjaskrifstofu fór yfir helstu þætti í fyrirhugaðri framkvæmd. Allt yfirborð götu og gangstétta verður endurnýjað, ásamt lögnum. Snjóbræðsla verður sett í allt göturýmið þ.e. í götu og gangstéttar. Markmið framkvæmdanna er að fegra götumyndina og bæta gönguleiðir, en gönguleiðin vestan götunnar verður breikkuð og gönguleiðir verða upphækkaðar á gatnamótum. Útlit götunnar verður með álíka sniði og Skólavörðustígur eftir endurbætur sem gerðar voru þar í fyrra.

Þór Gunnarsson gerði grein fyrir tímaáætlun, verkfyrirkomulagi og áfangaskiptingu. Einnig var farið yfir aðgengi að einstökum húseignum yfir verktímann.  Íbúar og hagsmunaaðilar lýstu ákveðnum vilja sínum til að fá að fylgjast náið með gangi framkvæmdarinnar. Lögðu þeir til að fulltrúar þeirra fengju að sitja reglulega upplýsingafundi með verkefnastjórum Framkvæmda- og eignasviðs.  Ámundi Brynjólfsson sagði það ætti að geta gengið eftir og væri í samræmi við áherslu sviðsins að eiga góð samskipti við íbúa og hagsmunaaðila.

Gögn sem kynnt voru á fundinum með íbúum og hagsmunaaðilum

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert