Samgönguráðherra hefur kynnt borgarstjóranum í Reykjavík hugmyndir að samgöngumiðstöð við Reykjavíkurflugvöll í breyttri mynd. Gert er ráð fyrir mun minni og ódýrari byggingu en rætt hefur verið um.
Hanna Birna Kristjánsdóttir borgarstjóri og Óskar Bergsson, formaður borgarráðs, fóru á fund Kristjáns L. Möller í samgönguráðuneytinu í gær. Á vegum ráðuneytisins og Flugstoða hafa hugmyndir um samgöngumiðstöð verið endurmetnar miðað við minni umferð um flugvöllinn en áður hefur verið reiknað með og voru nýju hugmyndirnar lagðar fyrir forystumenn borgarinnar. „Við settum fram hugmyndir um minni og ódýrari samgöngumiðstöð,“ segir Kristján.
Áður hafa verið gerðar tillögur um 6-8 þúsund fermetra samgöngumiðstöð á lóð norðan við Hótel Loftleiðir sem kosta myndi allt að 4 milljarða kr. Nýju hugmyndirnar miða við 3.500 fermetra byggingu sem myndi kosta undir einum og hálfum milljarði, að sögn ráðherra. Kristján segir að einnig hafi verið skoðað hvað kosta myndi að byggja slíka miðstöð á lóð gömlu flugstöðvarinnar en kostnaður sé talinn svipaður. Sá valkostur sé þó fyrir hendi.