Þingmenn Sjálfstæðisflokks í utanríkismálanefnd fóru fram á það á fundi nefndarinnar í dag, að Árni Þór Sigurðsson, formaður nefndarinnar, óski eftir upplýsingum frá forsetaembættinu og utanríkisráðuneytinu í tilefni af grein Eiðs Guðnasonar, fyrrverandi sendiherra í Morgunblaðinu á mánudag.
Ragnheiður Árnadóttir, sem situr í nefndinni, segir að þingmenn Sjálfstæðisflokksins hefðu talið eðlilegt að óska eftir skýringum utanríkisráðuneytisins og skrifstofu forseta í ljósi skrifa Eiðs, sem sagði að Ólafur Ragnar hefði farið á svig við sannleikann þegar hann bar til baka frásögn norska sendiherrans af fundi forsetans með erlendum sendiherrum í Reykjavík. Sagðist Eiður hafa lesið frásögn annars sendiherra af fundinum, sem staðfesti norsku frásögnina.
Á fundi nefndarinnar í morgun var fjallað um ummæli Ólafs Ragnars Grímssonar, forseta Íslands, sem birtust í þýskri útgáfu viðskiptablaðsins Financial Times. Þar var haft eftir Ólafi Ragnari, að Íslendingar myndu ekki greiða skuldir vegna Edge innlánsreikninga Kaupþings í Þýskalandi.
Árni Þór Sigurðsson sagði í samtali við mbl.is að utanríkismálanefnd muni ekki aðhafast frekar í máli forsetans og telur ekki tilefni til þess.
Ragnheiður sagðist telja mjög óheppilegt hvernig ummæli forsetans hefðu verið túlkuð, hvert svo sem samtal hans og blaðamanns þýska blaðsins hefði verið.
Árni Þór sagði að á fundinum hafi verið lagt fram minnisblað frá utanríkisráðuneytinu þar sem farið var yfir viðbrögð ráðuneytisins vegna viðtalsins og hvað gert hefði verið til að leiðrétta þau. Einnig var lagt fram bréf frá forsetaskrifstofunni þar sem lýst var aðkomu hennar að málinu og að hún teldi að orð forsetans hefðu verið rangtúlkuð. Send var yfirlýsing frá forsetaembættinu sem birt var í þýskum fjölmiðlum.
„Það kom ekkert annað fram en að það sé rétt að orð hans hafi verið rangtúlkuð,“ sagði Árni Þór. Hann sagði að utanríkisráðuneytið hafi upplýst að eftir að það brást við hafi engin eftirmál orðið í Þýskalandi eða frekari umfjöllun um málið.