Tveir karlmenn undir tvítugu eru í haldi lögreglunnar á Akranesi grunaðir um innbrot og þjófnað hjá Ístaki á Ægisbraut og skemmdarverk á bílum. Nágrannar gerðu viðvart um athæfi mannanna og náði lögregla þeim á vettvangi um kl. fjögur í nótt. Þeir voru undir áhrifum og verða yfirheyrðir þegar víman rennur af þeim.
Mennirnir höfðu brotist inn í vinnuskúr hjá Ístaki og voru með þýfi í plastpoka þegar þeir náðust. Ljóst þótti að verðmæti hefðu ekki endilega verið þeim efst í huga við iðju sína því þeir höfðu m.a. stolið kaffi og tannstönglum en einnig verkfærum.
Auk þess að valda skemmdum við innbrotin höfðu pörupiltar þessir brotið rúður í þó nokkuð mörgum bílum í nágrenninu og á athafnasvæði Ístaks. Piltarnir hafa komið við sögu lögreglu áður.