Skráðum umferðaróhöppum fækkar

Skráðum umferðaróhöppum og umferðarslysum á höfuðborgarsvæðinu fækkaði umtalsvert árið 2008 miðað við árið 2007. Þá fækkaði kærum vegna umferðarlagabrota hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu um 22% frá fyrra ári.

Þetta kemur fram í ársskýrslu umferðardeildar lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu. Samkvæmt tölum lögreglunnar fækkaði umferðaróhöppum um 30% eða úr rúmlega 9 þúsund í 6277.

Fram kemur í skýrslunni að skýringin liggi að nokkru leyti í samkomulagi tryggingafélaga og Neyðarlínu um mitt síðasta ár um aðstoð á vettvangi til handa þeim er lenda í minni háttar umferðaróhöppum. Á sama tíma hætti lögreglan að mestu að sinna slíkum óhöppum. Samkvæmt tölum tryggingafélaganna fækkaði óhöppum minna eða um 16%.

Þá voru umferðarslys á síðasta ári 41% færri en árið 2007 eða 535. Tölur tryggingafélaga sýna 28% fækkun milli ára segir í skýrslu LRH og tölur Umferðarstofu mæla 16% fækkun.

Markmið lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu á síðasta ári var að fækka slysum um 5% og til að ná því var megin áherslan meðal annars lögð á sýnilegt eftirlit þar sem slys hafa verið tíð, hraðakstursmælingar með ómerktri lögreglubifreið þar sem hraðakstur og/eða slys hafa verið tíð og meiri málshraða og markvissari vinnubrögð. Sömu áherslur verða lagðar fyrir starfið á þessu ári.

Fram kemur í skýrslunni að myndavélabifreið lögreglunnar vaktaði alls rúmlega 17 þúsund ökutæki í hinum ýmsu hverfum og sveitarfélögum umdæmisins og var 4845 þeirra ekið yfir leyfilegum hámarkshraða sem er um 28%. Á gatnamótum vöktuðu myndavélar alls 164.195 ökutæki og var 5241 ekið yfir leyfilegum hámarkshraða. Í Hvalfjarðargöngum voru 133.666 ökutæki vöktuð og ók 2141 yfir leyfilegum hraðamörkum þar.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert