Morgunblaðið fékk þrjár tilnefningar til Blaðamannaverðlaunanna 2008 og veitir nú lesendum sínum ókeypis aðgang að því efni sem tilnefnt er á mbl.is.
Þóra Kristín Ásgeirsdóttir er tilnefnd í flokknum Blaðamannaverðlaun ársins fyrir vandaðar fréttir á mbl.is þar sem hún nálgaðist frumlega málefni líðandi stundar og netmiðillinn var nýttur með nýjum hætti í íslenskri fjölmiðlun, líkt og segir í áliti dómnefndar. Þá eru Baldur Arnarson, Ragnar Axelsson og Önundur Páll Ragnarsson tilnefndir í flokknum Besta umfjöllun ársins 2008. Baldur fyrir greinaflokkinn Ný staða í norðri, þar sem farið var yfir þær náttúrufarslegu, efnahagslegu, félagslegu og pólitísku breytingar, sem hlýnun andrúmslofts og breytt staða á norðurslóðum hefur í för með sér og
Ragnar og Önundur Páll fyrir umfjöllun um virkjunarkosti á Íslandi. Þar voru að mati dómnefndar dregnir fram með öflugri samvinnu texta og mynda kostir og gallar hvers virkjunarkosts um sig og málið sett í skipulagt samhengi.
Efnið má finna á slóðinni http://mbl.is/mm/frettir/serefni/bladamannaverdlaun_2009