3.500 fyrirtæki stefna í þrot

Tæplega 150 fyrirtæki fóru í þrot á fimm vikna tímabili í upphafi árs eða 30 fyrirtæki í hverri viku að meðaltali.

Creditinfo kynnti í morgun niðurstöður greiningar um spá og þróun vanskila íslenskra fyrirtækja. Fyrirtækið hefur spáð fyrir um ógjaldfærni íslenskra fyrirtækja frá því árið 2002 og eru frávik á rannsóknum Creditinfo mjög lítil, þegar spár eru bornar saman við rauntölur.

Með ógjaldfærni er átt við árangurslaust fjárnám sem oftar en ekki er undanfari gjaldþrots.

Á góðæristímabilinu, frá 2004 til 2007 hélst fjöldi fyrirtækja sem fór í þrot nokkuð stöðugur. Veturinn 2007 til 2008 fór hins vegar að bera á aukningu vanskila og var sú aukning orðin sýnileg í öllum atvinnugreinum á landinu í janúar 2008.

Árin 2004 til 2007 lentu að meðaltali 1.000 fyrirtæki á ári í alvarlegum vanskilum en árið 2008 rauk sú tala upp í rúmlega 1.500.

Þá fóru að meðaltali 1.150 fyrirtæki í þrot á hverju ári, 2004 til 2007 en árið 2008 voru þau rúmlega 1.500.

Fyrirtæki í fjármála- og vátryggingastarfsemi voru kröfuhafar í um 9,5% fleiri málum árið 2007 en 2008, þar sem fyrirtæki fóru í þrot eða lentu í alvarlegum vanskilum. Kröfur opinberra aðila drógust saman um 9,1% á sama tíma. Fjöldi krafna jókst hins vegar  á þessu tímabili um 64%.

Miðað við óbreyttar aðstæður spáir Creditinfo því að 4.369 fyrirtæki, sem ekki eru skráð í vanskilum í dag, verði skráð á vanskilaskrá innan 12 mánaða. Af þessum fyrirtækjum spáir Creditinfo því að 3.492 fyrirtæki fari í þrot.

Af þeim tæplega 3.500 fyrirtækjum sem fara í þrot á næstu 12 mánuðum eru 70% eða rúmlega 2.400, á höfuðborgarsvæðinu en hlutfallslega flest fyrirtæki á Reykjanesi stefna í þrot, samkvæmt spá Creditinfo.

Flest fyrirtæki sem eru í hættu á þroti eru í byggingariðnaði eða 647 fyrirtæki. Næst á eftir fylgja fyrirtæki í verslun og þjónustu eða 588. Þá eru 483 fyrirtæki í fasteignaviðskiptum  í hættu á þroti næstu 12 mánuði.

Gangi spá Creditinfo eftir aukast þrot fyrirtækja um tæp 200% frá því árið 2007. Töluvert meiri aukningu er spáð fyrir um fjölda fyrirtækja sem lenda í alvarlegum vanskilum.

Heimasíða Creditinfo

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert