„Allsherjar endurmenntun nauðsynleg“

Frá samræðufundinum á Háskólatorgi HÍ í dag.
Frá samræðufundinum á Háskólatorgi HÍ í dag. mbl.is/Golli

„Það var mjög afgerandi skoðun fólks á fundinum að stærsta verkefni Íslendinga á næstunni sé að hér þurfi allsherjar endurmenntun þjóðarinnar til þess að ná fram því virka lýðræði sem talað er um," sagði Sigurborg Kr. Hannesdóttir hjá fyrirtækinu Ildi, sem stóð í gær ásamt Háskóla Íslands og fleirum, að samræðufundi um þróun lýðræðis á Íslandi í átt til virkari þátttöku almennings og hagsmunaaðila.

Samkoman var á Háskólatorgi HÍ með fyrirkomulagi sem kallað er Heimskaffi (World Café); slíkir fundir eru ólíkir venjulegum fundum að því leyti að samræður fara fram í litlum hópum og þykir aðferðin vel til þess fallin að ná skýrri niðurstöðu með lýðræðislegum hætti.

Rædd var spurningin: Ef Ísland vildi verða til fyrirmyndar í því að auka þátttöku almennings og hagsmunaaðila í „nýju lýðræði", hvaða afgerandi skref gætum við stigið?" Og svarið var afgerandi, eins og
Sigurborg benti á. „Jafnvel að byrja þurfi frá grunni, í skólakerfinu; á gagnrýnni hugsun, siðfræði og heimspeki – til þess að við verðum öll hæf til þess að taka þátt í lýðræðinu.

Að fundinum stóðu Stjórnmálafræðideild Háskóla Íslands og Stofnun stjórnsýslufræða og stjórnmála við HÍ, ILDI þjónusta og ráðgjöf, Endurmenntun HÍ og Morgunblaðið.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka