Fagna andláti nýfrjálshyggjunnar

Samþykkt var á aðalfundi Frjálshyggjufélagsins að fagna andláti hinnar svokölluðu nýfrjálshyggju. „Nýfrjálshyggjan fólst m.a. annars í aukinni ríkisvæðingu, ríkisábyrgðum og auknum opinberum afskiptum á flestum sviðum."

Aðalfundur Frjálshyggjufélagsins var haldinn í gær. Eftirtaldir voru kosnir í stjórn félagins: Björn Jón Bragason, formaður, Geir Ágústsson, Gísli Freyr Valdórsson, Gunnar Dofri Ólafsson, Heiðrún Lind Marteinsdóttir, Hulda Björg Jónsdóttir, Laufey Rún Ketilsdóttir, Máni Atlason, Páll Arnar Guðmundsson, Rafn Steingrímsson, Sigurður Þór Gunnlaugsson, Steinar Þór Ólafsson, Sævar Guðmundsson, Vignir Már Lýðsson, Vilhjálmur Andri Kjartansson og Víðir Smári Petersen.

Fundurinn samþykkti svohljóðandi ályktun:

„Frjálshyggjufélagið fagnar andláti hinnar svokölluðu nýfrjálshyggju. Nýfrjálshyggjan fólst m.a. annars í aukinni ríkisvæðingu, ríkisábyrgðum og auknum opinberum afskiptum á flestum sviðum. Tilraunir til að endurvekja nýfrjálshyggjuna með auknum ríkisafskiptum og að halda í blandað hagkerfi eru dæmdar til að mistakast eins og sagan hefur sýnt fram á. Þá vill félagið sérstaklega árétta þann siðferðislega annmarka á blönduðu hagkerfi sem fólginn er í ríkisábyrgðum. Ríkisábyrgðir færa áhættuna frá rekstaraðilum yfir til skattgreiðenda, ýta undir áhættusækni og bjaga þar með frjálsan markað.

Mikilvægt er að stjórnmálamenn átti sig á því að orsakir kreppunnar liggja hjá ríkisstjórnum víða um heim í formi ríkisábyrgða, undirmálslána, handstýrðrar lágvaxtastefnu, vaxandi embættismannakerfi, sífellt stækkandi ríkisbákni og fjöldaframleiðslu á lögum og reglugerðum sem draga úr framleiðni, drepa frumkvæði í dróma og kæfa nýliðun á markaðnum. Félagið skorar því á stjórnmálamenn að hverfa af braut haftastefnu og ríkisvæðingar og leyfa markaðnum að leiðrétta sig sjálfan.

Frjálshyggjufélagið telur nauðsynlegt að draga úr álögum á einstaklinga, sem hafa nú þegar tekið á sig mikla kjaraskerðingu. Hærri skattar, sem og óbeinar álögur, s.s. olíu- og áfengisgjald, eru til þess fallnir að hægja á eðlilegum bata hagkerfisins. Hugmyndir um aukna skattheimtu meðaltekjufólks ganga gegn öllum hugmyndum um jafnræði og jöfn tækifæri, auk þess að vera vinnuletjandi og hvetja til undandkota.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka