Ummæli sem höfð voru eftir forseta Íslands í FT-Deutschland 10. febrúar um skuldbindingar á innistæðum þýskra sparifjáreigenda á Edge-reikningum Kaupþings, ollu skjálfta í þýska stjórnkerfinu.
Forsetinn hefur lýst því yfir að ummæli hans hafi verið rangtúlkuð og á fundi utanríkismálanefndar í gær var lagt fram minnisblað utanríkisráðuneytisins um viðbrögð utanríkisþjónustunnar.
Þar segir að Ólafur Davíðsson, sendiherra í Þýskalandi, hafi gert grein fyrir málinu á fundi í þýska utanríkisráðuneytinu 11. febrúar.
„Fundinn sátu fulltrúar utanríkis- og fjármálaráðuneytis,“ segir í bréfinu. „Á fundinum kom fram að bæði fjármála- og utanríkisráðuneyti Þýskalands hefðu fengið fjöldann allan af símhringingum og skeytasendingum frá áhyggjufullum viðskiptavinum Kaupthing Edge þar sem þeir kröfðust þess að þýsk stjórnvöld aðhefðust eitthvað í málinu.
Þá upplýsti fulltrúi fjármálaráðuneytisins að fjallað hefði verið um málið í fjárlaganefnd þýska þingsins og hafði hann verið kallaður fyrir þingnefndina til þess að gera grein fyrir málinu,“ segir á minnisblaðinu.
Þá er því lýst að tafarlaust hafi verið brugðist við með því að koma réttum upplýsingum til þýskra fjölmiðla og stjórnvalda. Í framhaldinu róaðist fjölmiðlaumræðan.