Guðlaugur Þór Þórðarson, þingmaður og fyrrverandi heilbrigðisráðherra, sagði á þingi í dag að á dauða sínum hefði hann átt von, en ekki því að verða gagnrýndur fyrir að hafa ekki tekið á málefnum St. Jósepsspítala og Sólvangs í Hafnarfirði.
Á meðal þess sem Ögmundur Jónasson heilbrigðisráðherra sagði í munnlegri skýrslu sinni um spítalann var það að Guðlaugur hefði ekki tekið á málefnum launakjara sérfræðilækna á St. Jósepsspítala. Ögmundur rakti þar dæmi um mjög háar greiðslur til einstakra lækna, sem Guðlaugur hefði látið viðgangast á sinni vakt.
„Mér fannst nú kannski steininn taka úr þegar hann sagði að sá sem hér stendur hafi ekki tekið á þessum launakjörum sérfræðinga á St. Jóseps. Virðulegur forseti, missti ég af einhverju? Það er búið að skamma þann sem hér stendur fyrir það í margar vikur að hafa tekið á því. Það var algerlega ljóst þegar ég lagði upp í þá vegferð að ég fengi á mig árásir frá tveimur aðilum. Annars vegar frá sérfræðingum, af því að ég væri að taka þarna á miklum hagsmunum,“ sagði Guðlaugur. Hann hefði farið í hagræðingu á heilbrigðiskerfinu í byrjun ársins til þess að vernda grunnþjónustuna og margoft látið koma fram að téð sérkjör sérfræðinga ættu ekki rétt á sér.
Guðlaugur spurði ráðherrann, fyrst hann ætlaði ekki að fara þessa leið, hvaða leið hann ætlaði þá að fara. Því á hverjum degi sem menn fresti ákvörðun um þessa hagræðingu í heilbrigðiskerfinu, þá séu menn að senda reikninginn annað.