Landsbanki viðurkennir mistök

hag / Haraldur Guðjónsson

Landsbankinn hefur leiðrétt mistök sem hann gerði í síðustu vikunni fyrir bankahrunið. Þá óskuðu hjón eftir því að hann seldi peningamarkaðsbréf þeirra að upphæð fimm milljónir króna. Bankanum láðist að gera það en hefur nú endurgreitt hjónunum þar sem upptökur voru til af símtalinu þegar óskuðu eftir sölunni.

Hilmar Gunnlaugsson, lögmaður hjónanna, segir dæmi þeirra ekki það eina þar sem Landsbankanum hafi orðið á þegar óskað hafi verið eftir því að peningabréfin væru seld rétt fyrir bankahrunið. Beiðni annars umbjóðandi hans, sem vildi greiða einnar til tveggja milljóna króna lán með bréfunum sínum, hafi týnst í bakvinnslu bankans og bankinn nú einnig leiðrétt þau mistök.

Hilmar, sem starfar fyrir Réttlæti - hópinn sem tapaði á peningamarkaðsbréfum Landsbankans, segir að fleiri umbjóðenda hans  hafi sagt sér að þeir hafi hringt í bankann og ætlað að selja. Í sumum tilvikum hafi þeim verið talin trú um að selja ekki. En þessi dæmi séu ekki skjalfest. „Þessi tilvik virðast vera það skýr að Landsbankinn fellst á þau. Nú á eftir að reyna á önnur mál.“

Í tilkynningu frá Hilmari stendur að Landsbankinn hafi fallist á að í tilgreindum tilvikum hafi skýr beiðni um sölu komið fram áður en bankinn fór í þrot, en fyrir mannleg mistök eða kerfismistök hafi ekki verið orðið við beiðni viðskiptavinarins. „Bæturnar nema í sumum tilvikum mörgum milljónum króna. Bankinn hefur hins vegar neitað að greiða vexti.“

Hátt á þriðja hundruð aðila hafa falið Regula lögmannsstofu Hilmars að annast hagsmunagæslu fyrir sína hönd. „Illa hefur gengið að afla nauðsynlegra gagna, enda lítur Landsbankinn svo á, að trúnaður hans við útgefendur þeirra verðbréfa sem fjárfest var í og viðsemjendur hverju sinni, sé ríkari en réttur hlutdeildarskírteinishafa til upplýsinga um það hvernig farið var með þeirra fjármuni. Látið verður reyna á þennan skilning, sem að mati Hilmars nýtur ekki stuðnings í lögum og þeim meginreglum sem gilda um rétt viðskiptavinar til upplýsinga um sín málefni,“ segir í tilkynningunni.

Þeir sem áttu peningamarkaðsbréf í Landsbankanum töpuðu þriðjungi af sparnaði sínum. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert