„Við höfum verið við Reykjanesið síðustu tvo dagana en ekkert náð að kasta vegna veðurs. Það hefur verið rakin ótíð en spáin fyrir morgundaginn lofar góðu og við verðum að vona það besta. Það eru þrjár stórar loðnutorfur á þessu svæði en væntanlega náum við ekki almennilegri mælingu á þéttleikann í þeim fyrr en loðnan kemur inn í Faxaflóann og brotnar niður í smærri torfur,“ segir Lárus Grímsson, skipstjóri á Lundey NS, í samtali við vefsíðu HB Granda.
Áhöfnin á Lundey NS lauk fyrir nokkru loðnuleitinni, sem skipulögð var í samvinnu við Hafrannsóknastofnunina, og nú er stefnan sett á að veiða loðnu af þeim 15.000 tonna rannsóknakvóta sem sjávarútvegsráðherra gaf út á dögunum. Í hlut HB Granda komu um 2.800 tonn og munu Faxi RE og Ingunn AK einnig fara til loðnuveiða um leið og veðrið gengur niður. Að sögn Lárusar Grímssonar er stefnt að því að allur aflinn fari til hrognatöku hjá fiskiðjuveri HB Granda á Vopnafirði.
„Hrognafyllingin ætti um eða upp úr helginni að vera nægileg fyrir Japansmarkaðinn. Það veiddist loðna með 22% hrognafyllingu fyrir þremur dögum og hún ætti að vera komin upp í 23-24% upp úr helginni,“ segir Lárus.
Hann segir tíðarfarið upp á síðkastið vera einkar bagalegt. Það hafi leitt til þess að ekki hafi verið hægt að rannsaka þéttleikann í loðnutorfunum og fá þar með ennþá betri vitneskju um það magn sem er á ferðinni.
„Ástandið við Reykjanesið nú er eins og best gerist. Stórar loðnutorfur og ekki vantar hvalinn til að éta loðnuna. Það verður gaman að sjá niðurstöður mælinga úr smærri torfum á næstu dögum. Hafrannsóknastofnunin miðar við að það séu 10 loðnur í hverjum rúmmetra af sjó og þannig var ástandið austur við Ingólfshöfða á dögunum. Okkar reynsla er hins vegar sú að þéttleikinn vaxi jafnt og þétt eftir því sem vestar dregur og menn sjá það í hendi sér að það skiptir gríðarlegu máli fyrir niðurstöður mælinga hvort þéttleikinn er 10 loðnur í rúmmetranum eða jafnvel 30 til 40 eða þaðan af hærri. Það er mjög lofsvert framtak af hálfu Hafrannsóknastofnunarinnar að ráðast í þetta verkefni og ef menn ná tökum á þessum rannsóknum þá verður hægt að eyða hluta af þeirri miklu óvissu sem getgátur um stærð loðnustofnsins hverju sinni svo sannarlega eru,“ segir Lárus Grímsson.