Afi í tveggja ára fangelsi fyrir kynferðisbrot

Hæstiréttur Íslands.
Hæstiréttur Íslands. mbl.is/Brynjar Gauti

Maður hefur verið dæmdur í tveggja ára fangelsi fyrir kynferðisbrot gegn barnabarni sínu. Hæstiréttur mildaði dóm Héraðsdóms Reykjaness, en þar hafði hann verið dæmdur í fjögurra ára fangelsi.

Talið var hafið yfir skynsamlegan vafa að maðurinn hafi gerst sekur um þá háttsemi sem honum var gefin að sök. Við ákvörðun refsingar mannsins var litið til þess að brot hans voru trúnaðarbrot sem beindust gegn barnabarni hans, segir í dómi Hæstaréttar. „Á hinn bóginn var litið til þess að maðurinn var kominn á tíræðisaldur og bjó við nokkra skerðingu á vitrænni getu og var haldinn líkamlegum sjúkdómum,“ eins og það er orðað í dómi Hæstaréttar.

Í dómi Hæstaréttur segir að við mat á sönnun sakargifta samkvæmt ákæru skipti hvorki máli að faðir ætlaðs brotaþola hafi skýrt frá því að hann hafi orðið vitni að óeðlilegri háttsemi ákærða gagnvart öðru barnabarni sínu fyrir mörgum árum né að þriðja barnabarn ákærða hafi lagt fram kæru á hendur honum fyrir kynferðisbrot gegn henni meðan hún var barn að aldri, sem þó hafi ekki leitt til ákæru.

„Ákærði hefur með brotum sínum brugðist trúnaði gagnvart barnabarni sínu og á sér engar málsbætur,“ segir í dómnum.

Maðurinn var dæmdur til að greiða barnabarni sínu eina og hálfa milljón króna í miskabætur.

Málið dæmdu hæstaréttardómararnir Árni Kolbeinsson, Garðar Gíslason, Gunnlaugur Claessen, Ingibjörg Benediktsdóttir og Markús Sigurbjörnsson.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert