348% verðmunur á matvöru

Það borgar sig að skoða verðið vel því afsláttarmiðar boða …
Það borgar sig að skoða verðið vel því afsláttarmiðar boða ekkert endilega lægsta verðið Golli / Kjartan Þorbjörnsson

Mikill verðmunur var milli verslana þegar ASÍ kannaði verð í matvöruverslunum á höfuðborgarsvæðinu þriðjudaginn 17. febrúar. Bónus var oftast með lægsta verðið í könnuninni, eða á 28 af þeim 40 vörum sem skoðaðar voru. 10-11 var oftast með hæsta verðið eða í 16 tilvikum. Mestur verðmunur í könnuninni var 348 % á pasta sem reyndist dýrast 578 kr/kg í 10-11, en ódýrast 129 kr/kg í Kaskó. Minnstur verðmunur var á forverðmerktum vörum eins og ostum og áleggi. Þetta kemur fram á vef ASÍ.

Einnar krónu verðmunur á 13 vörutegundum á milli Bónus og næst ódýrustu búðarinnar

Ef litið er á lágvöruverðsverslanirnar einar sér (Bónus, Krónuna, Nettó og Kaskó), þá vekur athygli að aðeins er einnar krónu verðmunur á 13 vörutegundum milli Bónus og þeirrar lágvöruverðsverslunar sem er næst ódýrust. Það gerist í 11 tilfellum hjá Krónunni, 8 hjá Kaskó og einu sinni hjá Nettó. Mestur verðmunur á milli lágvöruverðsverslana var á pasta, brauðmeti, kexi, morgunkorni, kjöti og áleggi. Sem dæmi má nefna að pasta var dýrast í Krónunni 398 kr/kg en ódýrast í Kaskó 129 kr/kg. Verðmunurinn er 209%.

Fjarðarkaup ódýrasta þjónustuverslunin

Ef litið er á þjónustuverslaninar einar sér (Fjarðarkaup, Hagkaup, Nóatún og Samkaup–Úrval), þá er Fjarðarkaup oftast með lægsta verðið, eða á 26 vörum af 40. Lítill verðmunur er á ostum, viðbiti og mjólkurvörum, en mestur verðmunur á ávöxtum, grænmeti, dósamat og þurrvörum. Þegar á heildina er litið er mun breiðara verðbil á milli hæsta og lægsta verðs hjá þjónustuverslununum en lágvöruverðsverslununum. Brokkáls mix var ódýrast í Nóatúni 235 kr/kg, en dýrast í Hagkaupum 602 kr/kg. Mismunurinn er 156%.

Ef litið er á klukkuverslanirnar einar sér (11-11, 10-11 og Samkaup-Strax) þá er Samkaup-Strax ódýrast í 25 tilvikum af 40 og 10-11 í 20 tilvikum. Mestur verðmunur í klukkubúðunum var á ávöxtum, dósamat og þurrvöru. Hæsta verð er á rauðum eplum 499 kr/kg hjá 10-11 en lægsta 224 kr/kg hjá Samkaup-Strax. Mismunurinn er 123%.

Ekki alltaf ódýrast að kaupa vöru með 40% afslætti

„Það er nauðsynlegt fyrir almenning að fylgjast vel með verðlagi á þessum umbrotatímum. Eins og fram kemur í verðkönnuninni er mikill verðmunur á milli verslana á brauðmeti og kexi, kjötvörum, dósamat og þurrvöru, ávöxtum og grænmeti. Því þurfa neytendur að hafa vakandi auga með matvöruverði sem er síbreytilegt.

Oft er erfitt að átta sig á verðmismun vegna þess að sömu vörur eru seldar í mismunandi stærðum eftir verslunarkeðjum og stærri pakkningar eru ekki endilega ódýrari. Einnig getur reynst erfitt fyrir neytendur að átta sig á raunverulegu verði, þar sem mikið er af formerktum vörum sem seldar eru með álímdum afsláttarmiða og ekki gefið upp endanlegt verð til kaupandans.

Ekki er endilega hagkvæmara að kaupa vöru með 40% afslætti. Hún gæti verið ódýrari í öðrum pakkningum með engum eða minni afslætti. Það getur skilað sparnaði að eyða tíma í verðsamanburð í versluninni áður en ákvörðun er tekin um kaup á vörunni," að því er segir á vef ASÍ.

Í könnuninni var skráð hilluverð vöru eða það verð sem neytandinn hefur upplýsingar um inni í versluninni. Þegar skýrt er gefið til kynna að veittur sé afsláttur af merktu verði við kassa er tekið tillit til þess. Skráð var kílóverð á vörum vegna þess að mjög mismunandi er hvaða pakkastærðir eru seldar í verslunum. Þetta er gert til þess að auðvelda verðsamanburð.

Könnunin var gerð í eftirtöldum verslunum: Bónus Spönginni, Krónunni Fiskislóð, Nettó Mjódd, Kaskó Vesturbergi, Hagkaup Holtagörðum, Fjarðarkaupum Hólshrauni, Nóatúni Þjóðhildarstíg 2 - 4, Samkaup–Úrval Miðvangi, Samkaup-Strax Suðurveri, 11-11 Laugarvegi 116 og 10-11 Glæsibæ.

Hér er aðeins um beinan verðsamanburð að ræða, en ekki er lagt mat á gæði eða þjónustu söluaðila, samkvæmt því sem kemur fram á vef ASÍ.

Könnunin í heild 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert