Borgin mismuni fyrirtækjum

Egill Jóhannsson, forstjóri Brimborgar, telur að Reykjavíkurborg sé að mismuna fyrirtækjum í borginni þegar hún neiti fyrirtækinu að skila atvinnulóð á Kjalarnesi á sama tíma og Eimskip sé leyft að skila lóð í Sundahöfn og fá öll lóðagjöld endurgreidd. Egill segir það engu skipta þótt lóðin í Sundahöfn teljist formlega vera eign Faxaflóahafna sf., því Reykjavíkurborg eigi 75% í fyrirtækinu og hafi þar tögl og hagldir.

Egill skrifaði borgaryfirvöldum bréf í gærmorgun, í kjölfar þess að hann hafði lesið frétt Morgunblaðsins um lóðaskil Eimskips. „Það er því áhugavert að skoða stjórn Faxaflóahafna sf. og bera þá einstaklinga saman við þá sem sitja í borgarráði Reykjavíkurborgar. Þá kemur í ljós að sex manneskjur sem sitja í stjórn Faxaflóahafna sf. sitja einnig í borgarráði. Sama fólkið ber því ábyrgð á endurgreiðslu til Eimskips og höfnun endurgreiðslu til Brimborgar,“ segir Egill m.a. í bréfinu. Hann segir einnig að rétt sé að halda því til haga í þessu samhengi að Brimborg sé ekki að óska eftir sérmeðferð heldur krefjist þess að vera meðhöndlað eins og önnur fyrirtæki sem hafa skilað lóðum í borginni undanfarna áratugi.

Egill segir að rökin fyrir skilum Eimskips á lóðinni séu nánast orðrétt þau sömu sem Brimborg notaði nokkrum dögum áður, þ.e. „vegna breyttra aðstæðna í atvinnulífinu í kjölfar bankahrunsins“. Rökum Brimborgar hafi verið hafnað en rök Eimskips augljóslega tekin góð og gild.

„Að ofansögðu er ljóst að með því að hunsa lög og reglur og mismuna fyrirtækjum í borginni gefa þessir kjörnu fulltrúar um 200 manna samhentum hóp starfsmanna Brimborgar langt nef, bera enga virðingu fyrir 45 ára starfi Brimborgar í borginni og að auki bera ekki nokkra virðingu fyrir þeim tekjum sem fyrirtækið útvegar borginni t.d. í formi fasteignagjalda á hverju ári af eignum félagsins,“ segir Egill í bréfinu.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert