Hafi próf í hagfræði eða tengdum greinum

Álfheiður Ingadóttir í ræðustól Alþingis
Álfheiður Ingadóttir í ræðustól Alþingis

Álfheiður Ingadóttir, þingmaður Vinstri grænna og formaður viðskiptanefndar mælir nú fyrir breytingartillögu meirihluta nefndarinnar við seðlabankafrumvarp ríkisstjórnarinnar. Í dag fer fram önnur umræða um frumvarpið á Alþingi.

Á meðal þess sem þar kemur fram er að meirihluti nefndarinnar vill ekki að hróflað verði við hlutverki bankaráðs seðlabankans, svo sem að það setji starfsreglur um varðveislu gjaldeyrisvarasjóðsins. En í frumvarpi forsætisráðherra var gert ráð fyrir slíkri breytingu, frá því að seðlabankastjórar setji slíkar reglur.

Þar að auki vill meirihluti nefndarinnar að forsætisráðherra skipi auk seðlabankastjórans aðstoðarseðlabankastjóra sem skuli vera staðgengill seðlabankastjóra og er lagt til að um skipun, skipunartíma og hæfniskröfur hans gildi sömu reglur og um seðlabankastjórann sjálfan.

Þá vill meirihlutinn breyta menntunarkröfum seðlabankastjóra þannig að gerð verði krafa um að hann hafi lokið háskólaprófi í hagfræði eða tengdum greinum og búi yfir víðtækri reynslu og þekkingu á fjármálastarfsemi og efnahags- og peningamálum. Í frumvarpinu var gert ráð fyrir því að hann skyldi hafa lokið meistarprófi í hagfræði, en það skilyrði þótti of þröngt. Í umsögn sinni um frumvarpið bentu seðlabankastjórarnir Davíð Oddsson og Eiríkur Guðnason m.a. á að þá gæti maður með doktorspróf í fjármálafræðum ekki talist uppfylla skilyrðin, en maður með meistarapróf í heilsuhagfræði gæti það hins vegar.

Greinar sem nefndar eru sem ,,tengdar greinar“ eru til dæmis viðskiptafræði, rekstrarhagfræði, fjármálaverkfræði, fjármálastærðfræði, tölfræði við hagrannsóknir, fjármálafræði,  viðskiptalögfræði og fleira.

Þessa víðu skilgreiningu sagði Álfheiður í ræðu sinni tryggja að sem flest hæft fólk teldist uppfylla skilyrðin til að sækja um embættið.

Meirihluti viðskiptanefndar vill líka að vandað verði til verksins við skipun seðlabankastjóra, og þann verði skipuð sérstök nefnd sem leggi mat á hæfni umsækjenda í hvert sinn. Þar að auki verði skipunartíminn fimm ár en ekki sjö ár og þykir nefndinni betra að gæta samræmis við skipunartíma annarra embættismanna.

Þar að auki vill meirihluti viðskiptanefndar að ákveðnar breytingar verði gerðar á svonefndri peningastefnunefnd. Til dæmis vill nefndin ekki að aðilar utan bankans skipi nefndina alfarið, eða að meirihluti nefndarinnar skuli koma utan að. Einnig að fundargerðir peningastefnunefndar verði gerðar opinberar, svo sem hvernig atkvæði falla þar við töku ákvarðana.

Seðlabanki Íslands.
Seðlabanki Íslands. mbl.is/Golli
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert