Hafnar rannsókn á Hafskipsmálinu

Ríkissaksóknari hefur hafnað beiðni um að opinber rannsókn fari fram á ætluðum brotum við rannsókn Hafskipsmálsins í kjölfar gjaldþrots félagsins árið 1985 og hann hefur einnig neitað að afturkalla ákvörðun sína. Ríkissaksóknari telur jafnframt að ekki sé mögulegt að kæra þessa ákvörðun en reynist það rétt þýðir það væntanlega endalok tilrauna til að fá Hafskipsmálið tekið upp.

Ragnar Aðalsteinsson sem er lögmaður þeirra sem vilja að málið verði rannsakað hafnar þessu og segir ýmsar kæruleiðir koma til greina. Ekki hafi þó verið ákveðið hvaða leið verði farin.

Ragnar Aðalsteinsson og Sigríður Rut Júlíusdóttir sendu ríkissaksóknara kröfu um opinbera rannsókn á Hafskipsmálinu hinn 2. október 2008 sl. Beiðnin var 108 blaðsíður og með henni fylgdu hundruð fylgiskjala auk tveggja nýrra bóka eftir sagnfræðinga um Hafskipsmálið. Valtýr Sigurðsson ríkissaksóknari svaraði um hæl sex dögum síðar og sagðist mundu fela lögreglustjóra að annast rannsóknina „eftir nánari fyrirmælum“.

Í lok janúar skrifaði Valtýr annað bréf þar sem segir að við nánari skoðun á rannsóknarbeiðninni hafi það verið niðurstaða hans að frekari rannsóknar gerðist ekki þörf. Hann gagnrýnir rannsóknarbeiðnina einnig harðlega. Miklu máli skipti að rannsóknarbeiðni sé skýr og sérstaklega í jafn umfangsmiklu máli og þegar tekið væri mið af þeim þungu ásökunum sem bornar væru fram á hendur mönnum sem komu að málinu. Þá þyrfti að koma skýrt fram í hverju meintur refsiverður verknaður væri fólginn. Þessa hefur engan veginn verið gætt með þeim afleiðingum að mjög torvelt er, að mati ríkissaksóknara, að greina rannsóknarefni sem beiðnin lýtur að.“

Eins og gefur að skilja féll þessi ákvörðun ríkissaksóknara í grýttan jarðveg hjá þeim sem báðu um rannsóknina. Hin lauslega skoðun sem hefði farið fram á málinu og birtist í bréfi ríkissaksóknara væri svo „ófullkomin og kæruleysislega unnin“ að ekki yrði við unað. Þá áskildu þeir sér allan rétt til að kæra ákvörðun ríkissaksóknara til dómsmálaráðherra eða til dómstóla. Þess var krafist að ríkissaksóknari afturkallaði ákvörðunina enda hefði hann farið á svig við ófrávíkjanlegar málsmeðferðarreglur við undirbúning ákvörðunar sinnar.

Þeirri beiðni hafnaði ríkissaksóknari einnig og benti m.a. á að með nýjum lögum um meðferð sakamála hefði verið fellt úr lögum ákvæði sem kvað á um að dómsmálaráðherra gæti fellt úr gildi ákvörðun ríkissaksóknara.

Ragnar Aðalsteinsson bendir á hinn bóginn á að þar sem beiðnin kom fram fyrir lagabreytinguna eigi þessi rök ekki við.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert