Samtök ferðaþjónustunnar, (SF) lýsa yfir miklum vonbrigðum með að ákvörðun fyrrverandi sjávarútvegsráðherra um veiðar á hrefnu og langreyði skuli standa.
„Þegar litið er til gríðarlegrar andstöðu alþjóðasamfélagsins við hvalveiðar er ákvörðun um umfangsmiklar hvalveiðar óskiljanleg á sama tíma og við þurfum að endurreisa ímynd Íslands eftir efnahagshrunið,“ segir í tilkynningu SF.
Þá segir að í þeim efnahagsþrengingum sem eru víðast hvar í viðskiptalöndum okkar, muni ferðalög fólks dragast saman og enn meiri barátta verði um hylli ferðamannsins. Nágrannaþjóðir verji miklum fjármunum í markaðsmál og við það verði Ísland að berjast.
„Ferðaþjónusta er ein þriggja stoða í gjaldeyrissköpun þjóðarbúsins sem þarf nú á meiri tekjum að halda en nokkru sinni fyrr. Það er því undarlegt að stjórnvöld skuli leggja stein í götu þeirrar atvinnugreinar sem einna mest er horft til á þessum tímum. Ferðaskrifstofur víða um heim hafa hótað að taka Ísland út úr bæklingum sínum ef farið er í hvalveiðar en það er mjög mikivægt fyrir íslenska ferðaþjónustu að fá inni í bæklingum stóru söluaðilanna. Fyrir flesta þeirra skiptir litlu þótt Ísland detti út. Það getur ekki verið skynsamlegt að láta á það reyna vegna mjög óljósra hagsmuna.“