Hugmynd að „nýjum“ miðbæ kynntar á morgun

Hafnarstræti eins og það lítur út samkvæmt tillögunni.
Hafnarstræti eins og það lítur út samkvæmt tillögunni. mbl.is

Akureyrarbær og Graeme Massie Architects hafa á síðustu misserum unnið markvisst að því að móta verðlaunahugmyndir úr hugmyndasamkeppni Akureyrar í öndvegi. Nú liggur fyrir tillaga að nýju deiliskipulagi og er óskað eftir viðbrögðum íbúa og atvinnurekenda við þeim. Markmiðið er að miðbærinn verði öflugur vettvangur mannlífs, menningar og atvinnutækifæra.

Akureyrarbær býður til kynningar og samráðs um fyrirliggjandi skipulagshugmyndir í Amtsbókasafninu frá morgundeginum til 4. mars. Þar eru tillögurnar kynntar á veggspjöldum í máli og myndum en safnið er opið á virkum dögum frá kl. 10 til 19, laugardaga frá 12 til 17 en lokað á sunnudögum.

Í dag munu bæjarstjóri, Sigrún Björk Jakobsdóttir, og formaður bæjarráðs, Hermann Jón Tómasson, ásamt hönnuðum frá Graeme Massie Architects og skipulagsstjóra, Pétri Bolla Jóhannesson gera grein fyrir skipulagshugmyndunum á opnum fundi í Amtsbókasafninu frá kl. 14 til 15.30 og svara fyrirspurnum. Skipulagsráðgjafar og skipulagsstjóri verða á svæðinu frá 13 til 17 þann dag.

Tillögum og athugasemdum við deiliskipulagstillöguna má skila á netfangið midbaer@akureyri.is fyrir 5. mars 2009.

Á heimasíðu Akureyrarbæjar segir að í kjölfar þessarar kynningar haldi deiliskipulagsvinnan áfram og niðurstöður hennar verði kynntar á næstu vikum formlega samkvæmt skipulagslögum. Fram kemur að gera megi ráð fyrir liggi samþykkt deiliskipulag á vormánuðum, svo hægt verði að hefjast handa um fyrstu breytingar í miðbænum í sumar.

Bæjarbúar eru hvattir til að kynna sér tillögurnar á Amtsbókasafninu og taka þátt í frekari mótun miðbæjarins.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert