Málþing verður haldið á morgun í tilefni af 70 ára afmæli Jóns Baldvins Hannibalssonar, fyrrverandi formanns Alþýðuflokksins. Eru það gamlir nemendur, sem efna til málþingsins til heiðurs Jóni Baldvin.
Ræðumenn verða prófessorarnir Stefán Ólafsson og Þorvaldur Gylfason. Þá verða Guðmundur Ólafsson, hagfræðingur, Árni Páll Árnason, alþingismaður, Guðfríður Lilja Grétarsdóttir, varaþingmaður, Guðmundur Andri Thorsson, rithöfundur og Atli Heimir Sveinsson, tónskáld. Jón Baldvin mun flytja lokaorð.
Málþingið fer fram í Iðnó og hefst klukkan 14. Að málþinginu loknu munu Jón Baldvin og Bryndís Schram hafa opið hús að heimili sínu, Álfhóli við Engjaveg í Reykjadal í Mosfellsbæ.