Fjölda ungs fólks stefnt á „bjórkvöld“

Lögreglan áætlar að 300-400 ungmenni hafi verið í ólöglegu samkvæmi sem endir var bundinn á laust fyrir miðnættið í gærkvöldi. Fjöldi unglinga var fyrir utan húsnæðið, sem er við Fiskislóð (Járnbraut 1) og salurinn stappaður af fólki þegar lögreglan kom á staðinn kl. 23.40. Lagt var hald á tæplega 200 bjórdósir og nokkrar flöskur af sterku áfengi.

Heimildarmaður mbl.is sagði að miklum fjölda nemenda úr Menntaskólanum við Hamrahlíð hafi verið stefnt á staðinn á „bjórkvöld“. Þar hafi verið ætlunin að selja bjór og áfengi án allra tilskilinna leyfa. Hann hafði heyrt að forsprakkar samkvæmisins tengdust nemendafélagi skólans. Fyrr um kvöldið var haldin áfengislaus árshátíð í MH á sal skólans.

Samkoma þessi var haldin án tilskilinna leyfa og mun hún hafa verið auglýst á Snjáldurskjóðunni (Facebook).  Nokkrir félagar stóðu fyrir samkvæminu og fengu lánað húsnæði sem mun vera á vegum Stúdentaleikhússins. Að sögn lögreglunnar var samkvæmið ekki talist tengjast neinu skólafélagi sérstaklega. Enginn var handtekinn en lögreglan tók niður upplýsingar um nokkra einstaklinga á aldrinum 18-20 ára.

Geir Jón Þórisson yfirlögregluþjónn í lögreglu höfuðborgarsvæðisins sagði það ekkert einsdæmi að unglingar stæðu fyrir ólöglegum samkvæmum sem þessu. Hann taldi víst að málinu yrði fylgt eftir.

Kristinn Árni Lár Hróbjartsson, forseti Nemendafélags MH, sagði að samkvæmi þetta hafi ekki tengst nemendafélaginu á neinn hátt. Enginn úr stjórn félagsins hafi heldur tengst samkvæmishaldinu. Kristinn var ekki viðstaddur en kvaðst hafa ekið þar framhjá þegar hann heyrði í gærkvöldi að lögreglan væri komin á staðinn. 

Heimildarmaður mbl.is segir, að foreldrar, sem hafi frétt af þessu, vilji þakka lögreglunni fyrir vasklega framgöngu, því vitað sé að á álíka skemmtunum áður hafi stór hópur verið illa farinn eftir nóttina af drykkju bjórs og sterkra drykkja. Ennfremur þyki lýsingar á húsnæðinu ekki traustvekjandi, t.d. ef eldur hefði komið upp og fjölmenni verið á staðnum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert