Skuldir heimilanna hafa hækkað hratt undanfarin ár og mun hraðar en ráðstöfunartekjur. Skuldir heimilanna voru þannig um 2017 milljarðar króna samkvæmt áætlun Greiningar Glitnis í lok síðastliðins árs en ráðstöfunartekjur heimilanna á síðasta ári námu um 741 milljarðar.
Glitnir segir, að skuldir sem hlutfall af ráðstöfunartekjum hafi um áramótin staðið í 272% en til samanburðar var þetta hlutfall 178% árið 2000 og hefur því hækkað um 94 prósentur síðan.
Skuldaaukning heimila undanfarin ár hefur átt sér stað í flestum hagkerfum og afar mismunandi er hversu skuldsett heimili í einstökum löndum eru. Glitnir segir, að skuldir íslenskra heimila séu hins vegar miklar og hlutfall skulda á móti ráðstöfunartekjum hátt í samanburði við önnur þróuð hagkerfi. Þannig sé þetta hlutfall að meðaltali 134% í Bandaríkjunum, 180% á Írlandi, 140% á Spáni svo einhver lönd séu nefnd.