Gert er ráð fyrir að þriðja og síðasta umræða um seðlabankafrumvarp ríkisstjórnarinnar fari fram á Alþingi á mánudag. Greidd voru atkvæði um frumvarpið eftir aðra umræðu nú síðdegis og er gert ráð fyrir að viðskiptanefnd fjalli um það aftur yfir helgina að ósk sjálfstæðismanna.
Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra, sagði fyrir atkvæðagreiðsluna í dag, að viðskiptanefnd hefði unnið gott starf varðandi frumvarpið. Breytingartillögur meirihluta nefndarinnar styrktu meginmarkmið frumvarpsins um faglega endurskipulagningu yfirstjórnar Seðlabankans. Sagði Jóhanna að breytingin, sem verið væri að gera um Seðlabankann, muni gegna lykilhlutverki í endurreisn trúverðugleika íslensks efnahagslífs.
Birgir Ármannsson, talsmaður Sjálfstæðisflokksins í viðskiptanefnd, sagði að frumvarpið hefði breyst til bóta miðað við það sem upphaflega var lagt fram á þingi. Því miður væri frumvarpið þó lítið skref í þeim nauðsynlegu lagabreytingum, sem þurfi að gera um eftirlitsstofnanir á Íslandi.
Þingmenn Sjálfstæðisflokks, Frjálslynda flokksins og Framsóknarflokksins studdu flestar breytingartillögur stjórnarflokkanna en tvær breytingartillögur frá sjálfstæðismönnum í viðskiptanefnd voru felldar.