Þyrla sótti slasaða í Þykkvabæ

TF-Gná.
TF-Gná.

Tvær konur slösuðust alvarlega þegar lok þeyttist af majonestunnu í kartöfluverksmiðjunni í Þykkvabæ í dag. Þyrla Landhelgisgæslunnar flutti konurnar á Landspítala í Fossvogi. Að sögn lögreglunnar á Hvolsvelli var ekki vitað nánar um líðan kvennanna en þær voru þó með meðvitund.

Að sögn Auðuns Gunnarssonar, verksmiðjustjóra, var verið að dæla lofti í tunnuna þegar lokið þeyttist af. Um er að ræða hefðbundna aðferð við að dæla majonesi úr tunnum og hefur hún verið notuð árum saman í verksmiðjunni. 

Auðunn sagði, að lögreglan og vinnueftirlitið væru á staðnum og rannsökuðu hvað hefði farið úrskeiðis. Hann sagði að konurnar hefðu fengið höfuðáverka en vissi ekki nánar um líðan kvennanna og sagði þær vera í rannsókn.

Stjórnstöð Landhelgisgæslunnar barst kl. 14:07 beiðni frá Fjarskiptamiðstöð lögreglunnar um að þyrla Landhelgisgæslunnar yrði kölluð út vegna sprengingar sem varð í kartöfluverksmiðju í Þykkvabæ. Staðfest var að tveir menn væru alvarlega slasaðir.
 
Þegar útkallið barst var TF-EIR við æfingar á ytri höfninni. Kom þyrlan strax inn til lendingar á  Reykjavíkurflugvelli, sótti þyrlulækni og fór í loftið að nýju kl. 14:29. Var hún var komin á slysstað kl. 14:55.
 
TF-GNA var komin í loftið kl. 14:38 og lenti á slysstað kl. 15:05. Ákveðið var að báðir sjúklingar yrðu fluttir á Landspítala í Fossvogi með TF-GNA sem fór í loftið frá Þykkvabæ kl. 15:21. Lent var við Landspítalann  kl. 15:45.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert