Afskrifa 1.500 milljarða

mbl.is

Gamli Landsbankinn áætlar að afskrifa 1.452 milljarða króna að lokinni skuldajöfnun. Þetta kemur fram í yfirliti eigna og skulda bankans sem kynnt var kröfuhöfum hans í gær. Til samanburðar færði gamla Kaupþing 954 milljarða króna á afskriftarreikning til bráðabirgða fyrr í þessum mánuði, en efnahagsreikningur Kaupþings var mun stærri en Landsbankans fyrir bankahrun.

Mestar afskriftir vegna útlána

Alls nam virði eigna bankans 2.647 milljörðum króna hinn 14. nóvember síðastliðinn þegar búið var að skuldajafna fyrir 785 milljarða króna. Í yfirlitinu kemur hins vegar fram að skilanefnd Landsbankans metur virði eigna hans nú 1.195 milljarða króna. Mestur hluti afskriftanna er vegna útlána til viðskiptavina bankans og krafna á önnur fjármálafyrirtæki, eða tæplega 1.100 milljarðar króna.

Lárus Finnbogason, formaður skilanefndar Landsbankans, segir yfirlitið byggt á mati sem er áætlað miðað við núverandi stöðu. „Þetta teljum við raunhæft mat eins og staðan er í dag. Lánasöfnin sem voru færð yfir í nýja bankann hafa líka verið færð heilmikið niður. Þetta er það sem er að gerast. Það er svo mikil rýrnun á virði eigna.“

Á sama tíma nema skuldir Landsbankans 3.348 milljörðum króna. Þar af nema forgangskröfur, sem eru innstæður á Icesave-reikningum bankans, 1.338 milljörðum króna. Því munar um 144 milljörðum króna á eignum bankans og forgangskröfunum.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert