Drottningin aðstoði í Landsbankamáli

Drottningin er beðin um að láta til sín taka vegna …
Drottningin er beðin um að láta til sín taka vegna gjaldþrots Landsbankans. Reuters

Sparifjáreigendur á Guernsey eyju í Bretlandi, sem áttu fé í útibúi Landsbankans á eyjunni, hafa sent bresku drottningunni bænaskjal þar sem þeir óska eftir aðstoð hennar. Þeir hafa aðeins fengið um 30% sparifjár síns greidd eftir að bankinn fór í þrot í október síðastliðnum.

Samkvæmt frétt BBC um málið segja samtök sparifjáreigendanna, LGDAG (The Landsbanki Guernsey Depositors Action Group) að flestir sem töpuðu fé sínu í Landsbankanum séu komnir á efri ár og hættir að vinna. Þeir berjist því í bökkum.

Með bænaskjali sínu nýta samtökin sér 800 ára gömul réttindi eyjaskeggja til að leita til drottningarinnar. Þar biðja þeir hana um að „veita þeim þann stuðning sem viska hennar hátignar telur viðeigandi." Yfir tvö þúsund manns áttu um 117,3 milljónir punda í sparifé í bankanum áður en hann fór í þrot.

LGDAG segist hafa ákveðið að nýta sér bænarskjalsréttinn til að lyfta baráttu sinni á hærra stig. Janson Bewey, sem er í samtökunum, segir að þau muni halda áfram að berjast því fólk hafi stólað á þá fjármuni sem hafi tapast. Hann segist hafa fengið símtöl frá grátandi fólki í sárri neyð. „Fólk allt að 92 ára að aldri treysti á þessa peninga sér til framfærslu," segir hann.

LGDAG hafa þrýst á yfirvöld í Guernsey um skaðabætur vegna málsins. Nýlega var kynnt áætlun um bætur fyrir sparifjáreigendur en talið er ólíklegt að hún nái til innistæðueigenda í Landsbankanum á Guernsey þar sem bankinn varð gjaldþrota áður en áætlunin var gerð.

Réttur eyjaskeggja á Guernsey til að óska persónulega eftir aðstoð drottningar var lögfestur snemma á 13. öld gegn því að þeir myndu sverja bresku krúnunni hollustueið.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert