Félag leiðsögumanna bauð 85 erlendum ferðamönnum í ókeypis gönguferð í miðborg Reykjavík í gær og þótti uppátækið takast mjög vel í alla staði. í gær var Alþjóðlegur dagur leiðsögumanna.
Framtaki leiðsögumanna var allstaðar vel fagnað, skv. frásögn á heimasíðu félagsins, en atburðurinn var auglýstur á upplýsingamiðstöðvum, á nær öllum hótelum og á helstu gistiheimilum í Reykjavík.
Tilgangurinn með Alþjóðlegum degi leiðsögumanna, sem fyrst var haldinn hátíðlegur árið 1990 að undirlagi Alþjóðasambands leiðsögufélaga (WFTGA), er að auka sýnileika fagstéttarinnar og vekja athygli á fagmenntun leiðsögumanna.
Nær helmingur þeirra sem naut leiðsagnar í gær mætti strax í fyrstu ferð klukkan ellefu um morguninn en síðan voru ferðir á um hálftíma fresti til klukkan þrjú.
Á heimasíðu félagsins kemur fram að boðið var upp á leiðsögn á ensku, frönsku, þýsku og skandinavísku. Gengið var frá Hallgrímskirkju, um Þingholt, Skólavörðustíg og niður í miðbæ og á leiðinni létu leiðsögumennirnir ljós sitt skína gestunum til ánægju og fróðleiks.
Stysta gönguferðin þennan dag tók 40 mínútur og sú lengsta tvær klukkustundir en tímalengdin miðaðist við þarfir og óskir gesta.
Veðrið um morguninn var þokkalegt en strax uppúr hádegi tók að rigna og hvessa enda hafði Veðurstofa Íslands gefið út stormviðvörun. Væntanlega hefur veðrið haft einhver áhrif á þátttöku gesta eftir hádegi en leiðsögumennirnir kipptu sér ekki upp við aðstæður enda flestir vel búnir, segir á heimasíðu félags leiðsögumanna.
Leiðsögumennirnir Elín Sigríður Konráðsdóttir, Friðrik Rúnar Guðmundsson, Hólmfríður Gísladóttir, John C. Spencer, Skúli Möller, Steingrímur Gunnarsson og Ursula E. Sonnenfeld sáu um leiðsögnina. Einnig tveir nemar frá Leiðsöguskóla Íslands þau Guðrún Þorkellsdóttir og Ólafur Tryggvi Magnússon.