Brutu lög með upplýsingum á grænmetisumbúðum

Íslenskt Meðlæti hf.
Íslenskt Meðlæti hf.

Neytendastofa hefur tekið þá ákvörðun að banna Eggerti Kristjánssyni hf. sem rekur Íslenskt Meðlæti hf. notkun umbúða utan um grænmeti. Að mati Neytendastofu er gefið í skyn á umbúðunum að uppruni grænmetisins sé íslenskur sem er ekki rétt. Með notkun umbúðanna hafi Eggert Kristjánsson hf. brotið gegn ákvæðum laga um eftirlit með viðskiptaháttum og markaðssetningu.

Vörumerkið sem er í forgrunni á umbúðunum hefur að geyma nafn fyrirtækisins skráð með hástöfum, ÍSLENSKT MEÐLÆTI HF, og teiknaða stílfærða mynd af ýmsum grænmetistegundum, m.a. þeim tegundir sem voru í umbúðum þeim sem mál þetta fjallar um. Þá er vörumerkið umlukið þrem röndum í íslensku fánalitunum.

Skv. viðmiðunarreglum Samtaka iðnaðarins skal tilgreina á umbúðum vörunnar að hvaða leyti hún teljist íslensk. Það er ekki gert á umbúðum þeim sem mál þetta snýr að. Að teknu tilliti til framsetningar vörumerkisins er það mati Neytendastofu að útlit umbúðanna og upplýsingar á þeim gefi ótvírætt í skyn að uppruni grænmetisins sé íslenskur.

Hafna því að hafa vísvitandi villt um fyrir neytendum

Fyrirtækið, Íslenskt meðlæti hafnar því að það hafi vísvitandi verið að villa um fyrir neytendum með því að tilgreina ekki að grænmetinu sé pakkað og blandað á Íslandi. Grænmetið er að mestu framleitt í Evrópu og hefur fyrirtækið aldrei reynt að leyna því, enda um gæðavöru að ræða, að því er segir í tilkynningu frá fyrirtækinu.

Skoða úrskurð Neytendastofu

„Ekki hefur fengist forsoðið frosið íslenskt grænmeti til pökkunar þrátt fyrir eftirgrennslan. Lögmenn fyrirtækisins eru að skoða úrskurð Neytendastofu enda verður hann að teljast um margt nokkuð sérstakur. Lagaákvæði er varðar upplýsingagjöf á umbúðum eru mjög óljós og almenn og því erfitt fyrir fyrirtæki að átta sig á því hvar mörkin liggja," að því er segir í tilkynningu

Ákvörðun Neytendastofu í heild

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert