Eftir Þóru Kristínu Ásgeirsdóttur MBL sjónvarpi.
Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra segir að forsenda þess að ríkisstjórnin geti ráðist í nauðsynlegar efnahagsumbætur sé að seðlabankafrumvarpið fari í gegnum þingið. Tíðindin af fundi viðskiptanefndar í morgun hafa komið sér afar mikið á óvart. Hún segir málið allt fyrirslátt af hálfu framsóknarmanna.
Formenn stjórnarflokkanna ræddu málið á sérstökum fundi meðan á þingflokksfundum stóð. Jóhanna segir þetta vissulega stórmál en segist enn vonast til að samkomulag náist svo frumvarpið verði að lögum á morgun.
Höskuldur Þórhallsson, þingmaður Framsóknarflokks, myndaði meirihluta með sjálfstæðismönnum í viðskiptanefnd í morgun um að fresta því að frumvarpið yrði afgreitt frá nefndinni þar til ný skýrsla frá framkvæmdastjórn Evrópusambandsins um samræmt regluverk fyrir evrópska seðlabanka liggur fyrir.
Höskuldur segir þetta storm í vatnsglasi. Stundum verði menn að fylgja sinni sannfæringu og standa í lappirnar.