Íslandsbanki hefur ákveðið að fresta endurskoðun á vaxtaálagi erlendra húsnæðislána um eitt ár, fram til 1. mars 2010. Nú eru liðin fimm ár frá því að bankinn hóf að veita húsnæðislán í erlendri mynt. Í skilmálum vegna erlendra húsnæðislána er kveðið á um endurskoðun á vaxtaálagi lánanna eftir fimm ár, sem nú hefur verið frestað.
Erlend húsnæðislán bera breytilega LIBOR vexti (London Interbank Offered Rate – erlendir millibankavextir) auk vaxtaálags. Þann 1. janúar á þessu ári voru þriggja mánaða LIBOR vextir á hefðbundnu myntkörfuláni um 1.9% miðað við 4,3% í janúar 2008. Vextir hafa því lækkað mikið á þessu tímabili í samræmi við þá vaxtalækkun sem hefur orðið á erlendum mörkuðum, að því er segir í tilkynningu frá bankanum.
„Fjölmörg heimili hafa þó á undanförnum mánuðum þurft að glíma við aukna greiðslubyrði vegna veikingar krónunnar. Með frestun á endurskoðun vaxtaálags erlendra húsnæðislána vill Íslandsbanki koma á móts við þá viðskiptavini sem eru með húsnæðislán í erlendri mynt."