Fyrstu allsherjarkosningar VR

Merki VR.
Merki VR.

í dag fara fram fyrstu allsherjarkosningar til stjórnar Verslunarmannafélags Reykjavíkur, VR. Ásta Rut Jónasdóttir, oddviti L-lista, gagnrýnir kosningafyrirkomulag VR harðlega í grein um kosningarnar.

„Ástæða fyrir framboði L-lista lýðræðis fyrir VR er það ólýðræðislega kerfi sem byggt hefur verið upp í VR á löngum tíma,“ skrifar Ásta Rut, sem beinir spjótum sínum að sitjandi formanni.

„Það fólk sem gengt hefur trúnaðarstörfum fyrir VR kaus sitjandi formann aftur sem formann félagsins jafnvel þó formaðurinn hafði sem stjórnarmaður í Kaupþing banka samþykkt að útvalinn hópur fólks þyrfti ekki að greiða marga tugi milljarða skuld við bankann, skuld sem tilkomin var vegna áhættufjárfestinga. Formaður VR sat einnig í lánanefnd Kaupþings, nefnd sem samþykkti eða synjaði hver skyldi fá milljarða yfirdrætti eða lán frá bankanum.

Þeir sem kusu sama formann aftur hafa farið langt frá uppruna VR en það er að gæta hagsmuna þeirra 28.000 félagsmanna sem nú eru í félaginu. Það hefur engum tekist áður að bjóða fram lista á móti lista uppstillingarnefndar VR sem er hreint ótrúlegt í yfir 100 ára sögu félagsins. Hversu lýðræðislegt er það að stjórn VR hefur aldrei verið kosin í almennri kosningu? Stjórn og trúnaðarráð VR hefur hafnað áhugasömu og hæfu fólk sem óskað hefur eftir að taka þátt í starfi VR en staðið hefur utan stjórn og trúnaðarráð.“

Hún víkur því næst að ársreikningi félagsins.

„Samkvæmt ársreikningi árið 2007 voru tekjur félagsins tæpir 2 milljarðar (1975 milljónir) en af þeirri upphæð voru félagsgjöld 737 milljónir. Félagið greiddi skv. ársreikningi sama árs 537 milljón í rekstur, útbreiðslu og félagsmál.

Við höfum tækifæri núna til að gera endurbætur á félaginu og færa það til fólksins. Við höfum tækifæri til að koma á beinu lýðræði í VR og leyfa VR félögum sjálfum að taka ákvarðanir um stefnu og stjórn félagsins,“ skrifar Ásta Rut Jónasdóttir.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert