Elkem Ísland ehf. á Grundartanga áformar að koma upp nýrri framleiðslulínu í verksmiðju sinni til framleiðslu á sólarkísli. Fram kemur í áætlunum Elkem að fjárfesting í verksmiðjunni verði umtalsverð og 500-1000 manns muni vinna við byggingu hennar. Þá er áætlað að 350 manns vinni við framleiðslulínuna þegar hún verður tekin til starfa.
Eftir miklu er að slægjast, því áætlað er að bygging verksmiðjunnar muni kosta einn milljarð Bandaríkjadala, eða yfir 100 milljarða íslenskra króna, að sögn Einars Þorsteinssonar, forstjóra Elkem Ísland. Einar segir að það myndi skipta mjög miklu fyrir þjóðarbúið að fá þessa verksmiðju hingað. Orkuþörf verksmiðjunnar verður 100 MW, en ekki er búið að tryggja þá orku ennþá.
Sólarkísill, sem á að framleiða í verksmiðjunni, er kísilflögur sem sem notaðar eru í sólarrafhlöður. Hér heima þekkjum við þær helst á þökum felli- og hjólhýsa. Í raun er framleiðslan mjög hreinn kísilmálmur. Sólarrafhlöður eru gríðarlega útbreiddar í sólríkum löndum um allan heim.
Hin fyrirhugaða verksmiðja á Grundartanga er nú í matsferli.
Skipulagsstofnun hefur komist að þeirri niðurstöðu að breytingar á verksmiðjunni séu ekki líklegar til að hafa í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif og skuli því ekki háðar mati á umhverfisáhrifum. Ákvörðun Skipulagsstofnunar má kæra til umhverfisráðherra og er kærufrestur til 23. febrúar nk.
Skipulagstofnun segir að hin nýja starfsemi verði líkleg til að hafa jákvæð áhrif á samfélag og vinnumarkað.
Þá er það er mat Skipulagsstofnunar að ný framleiðslulína fyrir sólarkísil komi ekki til með að rýra loftgæði í hlutfalli við aukna framleiðslu hjá Elkem. Muni þar mestu að kröfur um hreinleika hráefna séu mun meiri en gerðar eru til hráefna fyrir núverandi framleiðslu á kísilmálmi. Stofnunin telur neikvæðustu áhrif af útblæstri fyrirtækisins vera losun á um 70 þúsund tonnum af koldíoxíði.