Lausn ekki fundin

Jóhanna Sigurðardóttir á Alþingi.
Jóhanna Sigurðardóttir á Alþingi. mbl.is/Kristinn

Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra, segir að ekki sé búið að finna lausn á seðlabankamálinu en frumvarp um bankann komst ekki á dagskrá Alþingis í dag þar sem það fékkst ekki afgreitt úr viðskiptanefnd þingsins.  Jóhanna segist vona að lausn finnist fyrir þingfund á morgun. Fundur hefur verið boðaður í viðskiptanefnd klukkan 8:30 í fyrramálið.

„Því miður fannst ekki  lausn á þessu í viðræðum við framsóknarmenn í dag," sagði Jóhanna nú undir kvöld. Hún sagðist hafa gert sér vonir um að frumvarpið yrði að lögum í kvöld en nú sé ljóst að svo verði ekki. 

Jóhanna sagði að skýrslan, sem von væri á frá Evrópusambandinu og sjálfstæðismenn í viðskiptanefnd og annar af tveimur framsóknarmönnum vilja bíða eftir, fjalli um aðra hluti en séu í seðlabankafrumvarpinu.  Sagði Jóhanna, að þegar skýrsla ESB lægi fyrir á miðvikudag eða fimmtudag yrði hún væntanlega rædd í viðskiptanefnd Alþingis. Efni þeirrar skýrslu sé hins vegar frumvarpinu um Seðlabankann óviðkomandi.

Jóhanna sagðist ekki vita nákvæmlega hvernig staða mála væri en vonaði, að hægt yrði að koma seðlabankafrumvarpinu á dagskrá Alþingis á morgun enda sé það afar brýnt.

Aðspurð hvers vegna fresta hafi þurft þingfundi í dag vegna seðlabankamálsins sagði Jóhanna, að þetta væri eitt stærsta dagskrármálið sem lægi fyrir  þinginu og það væri, auk mála fyrir atvinnulífið og heimilin, eitt af grundvallarmálunum sem ná þyrfti fram  til að hægt sé að koma á efnahagsstöðugleika í landinu. 

Steingrímur J. Sigfússon, formaður VG, sagðist meta stöðuna þannig, að þetta mál þyrfti eitthvað lengri tíma. „Það er bagalegt að það dragist, menn höfðu treyst því að það myndi klárast hér í dag. En auðvitað er þetta ekki klukkutímaspursmál," sagði Steingrímur.

Hann sagði að stjórnarflokkarnir vildu að málið klárist sem allra fyrst. enda væri það tilbúið og breytingartillögur hefðu verið samþykktar í góðri sátt eftir aðra umræðu á föstudag. „En svona mál eru bara til að leysa þau," sagði Steingrímur og bætti við að hann vissi ekki hvort niðurstaða fengist fyrir  þingfund á morgun, sem er boðaður klukkan 13:30.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert