Fjöldi bankastarfsmanna hefur leitað sér sálfræðiaðstoðar í kjölfar bankahrunsins. Er ástæðan ekki síst sú að starfsfólkið tekur inn á sig umræðuna um bankana í þjóðfélaginu.
„Þetta er ákveðin tegund af áfallahjálp sem við sinnum fyrir starfsfólk bankanna,“ segir Þórkatla Aðalsteinsdóttir, sálfræðingur á Lífi og sál sálfræðistofu, en til hennar hefur leitað fjöldi bankastarfsmanna. Að mati Þórkötlu eru sögur um leiðindi viðskiptavina bankanna líklega ýktar. „Það er mjög erfitt að horfa upp á sína viðskiptavini í miklum erfiðleikum og hafa fáar leiðir til að hjálpa fólki. Þessi óvissa gengur nærri starfsfólki bankanna, sem er í vinnu við að liðsinna fólki í peningamálum,“ útskýrir Þórkatla.
„Það er ansi slæmt að vera úthrópaður sem sökudólgur í samfélaginu,“ segir hún um umræðuna í samfélaginu. Þá segir hún að algengt sé að bankastarfsmenn kvarti undan því að fá skammir frá venjulegu fólki í frítíma sínum. „Það er erfitt að vilja bæði sýna vinnustað sínum hollustu en vita jafnframt að þessi gagnrýni á við einhver rök að styðjast,“ útskýrir Þórkatla, sem segir togstreituna mikla.
Hann gagnrýnir að fólk í opinberri umræðu noti orðið „bankamenn“ yfir alla starfsmenn bankanna, án tillits til þess hvort um er að ræða yfirmenn eða starfsfólk á gólfi. Síðarnefndi hópurinn hafi ekkert gert af sér nema vinna í banka. „Það er erfið umræða þegar allir eru settir undir sama hattinn,“ segir Friðbert.