Mikil fundahöld í þinghúsinu

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokks, í ræðustóli Alþingis.
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokks, í ræðustóli Alþingis. mbl.is/Kristinn

Mikil fundahöld hafa verið í Alþingishúsinu síðdegis til að reyna að leysa hnút, sem Seðlabankamál er komið í.  Þau fundahöld fóru þó ekki fram í þingsalnum því eftir að þingfundi hafði verið frestað þrívegis var fundinum slitið klukkan 17:30 án þess að gengið hefði verið til dagskrár.

Hefur Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra, m.a. átt fundi með Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni, formanni Framsóknarflokks, Katrínu Jakobsdóttur, vararformanni VG, og formönnum þingflokka stjórnarflokkanna og Álfheiði Ingadóttur, formanni viðskiptanefndar.  

Einn úr röðum stjórnarþingmanna sagðist síðdegis eiga vona von á að samkomulag næðist þannig að hægt verði að halda þingfundum áfram í dag en það gekk ekki eftir.

Eftir að Guðbjartur Hannesson, forseti Alþingis, hafði slitið þingfundi kröfðust þingmenn Sjálfstæðisflokks þess að fá að ræða um störf þingsins og gagnrýndu að þingið hefði verið látið sitja aðgerðarlaust meðan rætt var í hliðarsölum um seðlabankafrumvarpið; hægt hefði verið að fjalla um önnur mál á meðan á þingfundi.

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir vildi vita hvernig dagskrá þingsins ætti að vera næstu daga; sjálfstæðismenn vildu ræða brýn efnahagsmál. 

Bjarni Benediktsson gagnrýndi að forsætisráðherra hefði sagt í fjölmiðlum í dag, að brýnar efnahagsaðgerðir ríkisstjórnarinnar væru í uppnámi vegna þess að viðskiptanefnd þingsins hefði ekki náð að afgreiða frumvarp um Seðlabanka. Þetta væri ámælisvert vegna þess að þessar brýnu efnahagsaðgerðir væru ekki á dagskrá þingsins. 

Mörður Árnason, þingmaður Samfylkingar, sagði að það þyrfti að ná tökum á hagstjórn í landinu og það yrði ekki gert nema komið yrði á skipulagsbreytingum í Seðlabanka Íslands. 

Guðbjartur sagði að menn ætluðu að reyna að nýta tímann vel í þinginu og þingmenn yrðu að aðstoða við það. Gert væri ráð fyrir að þingfundur verði haldinn á morgun samkvæmt áætlun. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert