Miðar með óhróðri um útlendinga voru settir á framrúður bíla þeirra sem sóttu fjölmenningarkvöld á Sauðárkróki á föstudagskvöld í síðustu viku. Um var að ræða nokkur blöð í A4-stærð, þar sem m.a. var haldið fram að fjölmenning væri þjóðarmorð og Ísland væri aðeins fyrir Íslendinga.
Atvikið þykir setja svartan blett á annars vel heppnað kvöld, sem var haldið þriðja árið í röð á vegum Rauða kross Íslands og sveitarfélagsins Skagafjarðar. Á því kynntu um 14 útlendingar menningu sína fyrir á fjórða tug Íslendinga.
Einn gesta menningarkvöldsins varð miðanna var áður en dagskráin var búin og safnaði hann miðunum saman þannig að aðrir gestir yrðu þeirra ekki varir, enda þótti aðstandendum alþjóðakvöldsins engin ástæða til að láta þetta eyðileggja annars mjög góða stemningu.
„Þetta var kannski hugsað sem grín, en þetta er ekki skemmtilegt samt,“ segir Ivano Tasin, forstöðumaður nýja menningarheimilisins Húss frítímans, þar sem kvöldið var haldið. „Flestir [fá] sjokk þegar þeir heyra hvað gerðist,“ bætir hann við. Hann tekur þó fram að almennt séu Skagfirðingar vingjarnlegir í garð útlendinga, hér sé um einangrað atvik að ræða.
Þær upplýsingar fengust hjá lögreglunni á Sauðárkróki að málið yrði rannsakað, en í gær hafði engin kæra borist lögreglu.