Skynsamlegt að bíða

Seðlabanki Íslands.
Seðlabanki Íslands. mbl.is/Golli

Höskuldur Þórhallsson, þingmaður Framsóknarflokks, telur að óskynsamlegt hefði verið að afgreiða frumvarpið um Seðlabanka Íslands úr viðskiptanefnd Alþingis án þess að skoða innihald skýrslu sem unnin er fyrir framkvæmdastjórn ESB um regluverk á fjármálamörkuðum. Hann segir Sigmund Davíð Gunnlaugsson, formann Framsóknar, sammála áliti sínu.

„Þetta er skýrsla sem fjallar akkúrat um það sem við erum að gera í þessu máli. Sumir hafa sagt að um tímamótaskýrslu sé að ræða og ég tel að það hefði verið mjög óskynsamlegt að bíða ekki þennan stutta tíma,“ segir Höskuldur en skýrslan verður birt á miðvikudag. Hann segir að framhaldið verði metið í kjölfar birtingar hennar.

Athygli vakti að Birkir Jón Jónsson, þingmaður Framsóknarflokks, var ekki sammála Höskuldi í málinu. Það segir Höskuldur þó ekki óeðlilegt. „Það er fullkomlega eðlilegt. Við erum bundnir af sannfæringu okkar og eigum að greiða atkvæði þannig. En við höfum annars verið mjög samstiga í þessu máli.“

Álfheiður Ingadóttir, formaður nefndarinnar, sagði í samtali við fréttastofu Ríkisútvarpsins að hún myndi reyna koma á öðrum fundi í dag. Höskuldur kannast ekki við að boðað hafi verið til hans. Ef svo verður mun Höskuldur ekki breyta atkvæði sínu. „Ég ræddi þetta m.a við formanninn og hann mat þetta skynsamlegt.“


Höskuldur Þórhallsson.
Höskuldur Þórhallsson. Árni Sæberg
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka