Vilja fresta seðlabankaumræðu

Frá Alþingi.
Frá Alþingi. mbl.is/Kristinn

Samþykkt var á fundi viðskiptanefndar Alþingis í dag, að óska eftir því að þriðju umræðu um seðlabankafrumvarpið verði frestað þar til nefnd á vegum Evrópusambandsins hefur lagt fram tillögur um breytingar á stjórnsýslu eftirlitsstofnana á fjármálamarkaði. Til stóð að þriðja umræða færi fram í dag.

Nefnd Evrópusambandsins leggur fram tillögur sínar á miðvikudag. Sjálfstæðismenn í viðskiptanefnd lögðu á fundi hennar í dag til að fresta lokaumræðu um frumvarpið þar til tillögur ESB-nefndarinnar liggja fyrir. Höskuldur Þórhallsson, annar þingmanna Framsóknarflokksins í viðskiptanefnd, greiddi atkvæði með tillögunni en hinn, Birkir Jón Jónsson, greiddi atkvæði gegn henni eins og þingmenn VG og Samfylkingar.

Að sögn Birgis Ármannssonar, þingmanns Sjálfstæðisflokksins, kom sérfræðingur fjárfestingarbankans JP Morgan í Lundúnum á fund viðskiptanefndar í morgun og upplýsti hann, að nefnd Evrópusambandsins myndi kynna niðurstöður sínar á miðvikudag. Í ljósi þess að breytingar á lögum  um seðlabanka eru mjög í forgrunni starfs þessarar nefndar hefðu sjálfstæðismenn lagt til að lokaafgreiðslu seðlabankafrumvarpsins yrði frestað svo hægt væri að meta að hvaða leyti nýju tillögurnar hefðu áhrif á íslenska seðlabankans.

Önnur umræða um seðlabankafrumvarpið fór fram á Alþingi á föstudag en frumvarpinu var vísað til viðskiptanefndar á ný að ósk sjálfstæðismanna. Birgir sagði, að ástæða þess væri sú, að þeim þætti málið ekki nægilega þroskað og og nálgunin í frumvarpinu væru of þröng og snérist einkum um skipurit bankans. Eðlilegt sé að skoða hvaða breytingar þurfi að gera á lagaumhverfi Seðlabankans í víðara samhengi.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert