Bresku verslunarkeðjurnar Waitrose og Marks & Spencer hafa mótmælt ákvörðun ríkisstjórnar Íslands að heimila hvalveiðar í atvinnuskyni. Waitrose hefur þegar látið kanna hvort þeir sem útvegi keðjunni íslenskan fisk tengist hvaleiðum á nokkurn hátt. Þá hafa keðjurnar skrifað íslenskum stjórnvöldum bréf þar sem þess er krafist að ákvörðuninni verði snúið við.
Þetta kemur fram í vefútgáfu breska dagblaðsins Guardian. Þar er haft eftir talsmanni hjá Marks & Spencer að verslunarkeðjan muni ítreka afstöðu sína við íslensk stjórnvöld, en hann segir að fyrirtækið vilji ekki koma nálægt drápum á sjávarspendýrum.
Framkvæmdastjórar Waitrose heimsóttu Ísland fyrir hálfum mánuði og vildu tryggja að engin tengsl væru á milli samstarfsaðila þeirra hér á landi og hvalveiða. Svo er ekki að þeirra sögn.
Þeir áttu jafnframt fund með Steingrími J. Sigfússyni sjávarútvegsráðherra og öðrum íslenskum embættismönnum, þar sem þeir báðu um að ákvörðuninni yrði hnekkt.