Breytingar verða á Neyðarmóttöku vegna nauðgunar á Landspítalanum í Fossvogi frá og með 1. maí næstkomandi. Í stað hjúkrunarfræðinga á LSH sem hafa unnið á móttökunni á bakvöktum taka hjúkrunarfræðingar á slysa- og bráðasviði sjúkrahússins við þessu verkefni og er miðað við að um 20 manns fái þjálfun á þessu sviði. Á þennan hátt verður ein vakt hjúkrunarfræðinga lögð niður og sparnaður sjúkrahússins er talinn verða 10-20 milljónir króna á ári.
Már Kristjánsson, sviðsstjóri á slysa- og bráðasviði LSH, segir að þjónusta móttökunnar eigi að verða traustari með þessari breytingu, en í raun sé um útfærslu á vinnu að ræða. „Ætlun okkar er að nýta næstu þrjá mánuði til að þjálfa upp starfsfólk bráðasviðsins svo það geti tekið á móti fórnarlömbum nauðgunar,“ segir Már.
„Þetta þýðir í rauninni að í þeim hópi sem er að vinna á bráðasviði á hverjum tíma er alltaf einhver skilgreindur hjúkrunarfræðingur sem er þess umkominn að taka þennan málaflokk að sér ef upp kemur tilfelli á neyðarmóttökunni. Við lítum þannig á að við séum að bæta þjónustuna fyrir þennan hóp með því að fleiri hjúkrunarfræðingar verði í stakk búnir til að takast á við verkefnið,“ segir Már.
Eyrún Jónsdóttir er umsjónarhjúkrunarfræðingur Neyðarmóttökunnar í 80% starfi, en síðan hafa sjö hjúkrunarfræðingar tekið bakvaktir á Neyðarmóttökunni. Margir þeirra hafa sinnt þessum störfum í fjölda ára, en starfa ekki á bráðasviðinu þess utan. Samningum um þessar bakvaktir verður sagt upp fyrir mánaðamót.