Móðir nokkur á Selfossi á þá ósk heitasta að geta flutt í burtu vegna þess að barnið hennar verður fyrir einelti í grunnskóla og hún telur ekki tekið á málinu. Kona ein kveðst hafa fylgst með baráttu vinkonu sinnar við skólann á staðnum, en vinkonan hefur barist fyrir því að tekið verði á einelti gegn barninu hennar.
Morgunblaðinu hefur borist fjöldi ábendinga frá foreldrum á Selfossi um að pottur sé brotinn í skólamálunum á staðnum, hvort sem er í grunnskólanum eða Fjölbrautaskóla Suðurlands, FSu, og birtir hér samtöl við nokkrar mæður, sem vilja ekki láta nafns síns getið til að vernda börn sín. Allir sem rætt hefur verið við eru sammála um að taka þurfi af meiri einurð á eineltismálum á Selfossi.
Móðir 1: „Sami strákurinn hefur verið að níðast á honum síðan í 1. bekk. Ég hef talað tvisvar við móður hans, síðast í vetur. Hún hafði aldrei heyrt það frá skólayfirvöldum að eitthvað hefði gengið á í gegnum tíðina,“ segir móðir drengs í Vallaskóla á Selfossi. Hún er ekki sátt við hvernig skólayfirvöld hafa brugðist við umkvörtunum hennar yfir því að sami strákur hafi lagt son hennar í einelti árum saman án þess að tekið sé á málinu. Hún segir yfirmenn í skólanum vísa hver á annan. „Hann fer ekki í leikfimi og hann fer ekki í sund af því honum líður svo illa. Ég er búin að ganga í gegnum hvílíkar hremmingar í öll þessi ár. Mér finnst með ólíkindum að skólastjórinn og deildarstjórinn vísi hvor á annan. Svo í ofanálag vísa þeir á þann sem sér um að framfylgja Olweus-áætluninni í skólanum, og hann kannast bara ekkert við þetta.“ Móðirin segir engum blöðum um það að fletta að ekkert sé unnið í þeim eineltismálum sem upp koma í skólanum. Hún hefur margsinnis talað við skólastjórann og deildarstjórann um mál sonar síns. Móðirin vildi sérstaklega taka það fram að kennarar eigi líka hlut að máli í einelti. „Þeir eiga líka sinn hlut í því að ekki er tekið á málunum, eru eiginlega orðnir meðvirkir,“ segir móðirin.
Móðir 3: „Í Fjölbrautaskóla Suðurlands á Selfossi er öllum markaður bás og ég hef miklar áhyggjur af klíkumynduninni sem viðgengst þar,“ segir móðir fyrrverandi nema í FSu. Sjálf er móðirin stúdent frá FSu og man ekki eftir því að þetta hafi verið svona á þeim tíma sem hún var í skólanum.