Þór Sigfússon, formaður Samtaka atvinnulífsins, segir ýmsar ákvarðanir og aðgerðir stjórnvalda ráða miklu um hvernig til takist á næstu mánuðum en ein alvarlegasta hættan fyrir íslenskt efnahags- og atvinnulíf sé sú, að það sé talað niður svo ástandið verði enn verra.
Þór segir á heimasíðu SA, að frá upphafi kreppunnar hafi borið á stórum yfirlýsingum um hörmulegt ástand þjóðarbúsins sem hafi skapað ótta og dregið kjark úr fólki. Mikilvægt sé að fólk fái eins raunsanna mynd af ástandi efnahags- og ríkisfjármála og frekast er kostur.
„Vandræðin eru alveg næg þó svo við séum ekki að ýkja umfang þeirra," segir Þór. „Komið hefur fram að nettó ríkisskuldir eru áætlaðar um 5-600 milljarðar í árslok 2009 eða 33-40% af áætlaðri landsframleiðslu ársins, en slíkt hlutfall er alls ekki fjarri því sem þekkist í mörgum samkeppnislöndum okkar. Nú lítur út fyrir að óðaverðbólgan sem margir spáðu árið 2009 verði nokkuð undir 10%."
Heimasíða Samtaka atvinnulífsins