Framlengja ákvæði um hlutabætur

Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir félags- tryggingamálaráðherra, ásamt forvera sínum Jóhönnu Sigurðardóttur. …
Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir félags- tryggingamálaráðherra, ásamt forvera sínum Jóhönnu Sigurðardóttur. Ásta Ragnheiður hefur nú lagt til að ákvæði um hlutaatvinnuleysisbætur verði framlengt til áramóta. mbl.is/Ómar

Ríkisstjórnin samþykkti í morgun að leggja fyrir Alþingi frumvarp sem framlengir heimild til að greiða fólki í hlutastarfi atvinnuleysisbætur. Heimild til að greiða hlutabætur til þeirra sem búa við skert starfshlutfall rennur út 1. maí næstkomandi en ákveðið var að framlengja heimildina til áramóta. Þá fær Vinnumálastofnun heimild til að kalla eftir upplýsingum og rökstuðningi frá fyrirtækjum sem grípa til samdráttar og minnka starfshlutfall.

Í frumvarpi sem Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir, félags- og tryggingamálaráðherra, kynnti í ríkisstjórn í morgun, eru lagðar til nokkrar breytingar á lögum um atvinnuleysistryggingar. Meginbreytingin er framlenging heimildar til greiðslu hlutabóta úr atvinnuleysistryggingasjóði.

Í nóvember síðastliðnum var samþykkt á Alþingi lagabreyting sem veitti heimild til að greiða fólki í hlutastarfi tekjutengdar atvinnuleysisbætur í lengri tíma en áður auk þess sem skerðing atvinnuleysisbóta vegna launagreiðslna fyrir hlutastarf var felld niður. Frumvarpið nú gerir ráð fyrir framlengdum gildistíma ákvæðisins til 31. desember 2009. Sú breyting er þó lögð til að skerðing starfshlutfalls þurfi að vera að lágmarki 10% til þess að viðkomandi eigi rétt til hlutabóta.

Þá fær Vinnumálastofnun heimild til að kalla eftir upplýsingum og rökstuðningi frá fyrirtækjum sem grípa til samdráttar og minnka starfshlutfall. Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir, félags- tryggingamálaráðherra segir þetta gert til að fylgjast með hvort raunverulegar ástæður liggi að baki samdrætti.

„Ég get ekki fullyrt um það hvort fyrirtæki hafa misnotað heimildir til hlutabóta. En mér finnst full ástæða til þess að Vinnumálastofnun hafi heimildir til að kalla eftir upplýsingum og geti út frá þeim gögnum, fylgst með að heimildin sé ekki misnotuð,“ segir Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir.

Réttindi sjálfstætt starfandi einstaklinga

Lagabreytingin frá því í nóvember rýmkaði einnig rétt sjálfstætt starfandi einstaklinga til atvinnuleysisbóta frá því sem áður var. Þessar breytingar voru tímabundnar með gildistíma til 1. maí 2009. Í frumvarpi félagsmálaráðherra er kveðið á um framlengingu framangreindra ákvæða til 31. desember 2009.

Í fyrsta lagi er skilgreiningu hugtaksins sjálfstætt starfandi einstaklinga breytt þannig að til þeirra teljist einungis þeir sem starfa við eigin atvinnurekstur eða sjálfstæða starfsemi. Samkvæmt því verður litið á alla aðra sem starfa hjá eigin einkahlutafélögum, sameignarfélögum eða hlutafélögum sem launamenn og mun réttur þeirra til atvinnuleysisbóta byggjast á því.

Í öðru lagi felur frumvarpið í sér að réttur sjálfstætt starfandi einstaklinga verði færður til betra samræmis við rétt launafólks innan kerfisins. Þannig er gert ráð fyrir að sjálfstætt starfandi einstaklingar kunni að vera hlutfallslega tryggðir en til að meta tryggingahlutfall þeirra innan kerfisins er lagt til að miðað verði við viðmunarfjárhæðir fyrir reiknað endurgjald sem fjármálaráðherra gefur út árlega fyrir hverja starfsgrein. Jafnframt er gert ráð fyrir að þeir sem greiða einu sinni á ári staðgreiðsluskatt af reiknuðu endurgjaldi og tryggingagjald geti talist hlutfallslega tryggðir á grundvelli laganna að ákveðnum skilyrðum uppfylltum en þeir hafa ekki átt rétt innan atvinnuleysistryggingakerfisins fram til þessa.

Í þriðja lagi er gert ráð fyrir því nýmæli að áunninn réttur sjálfstætt starfandi einstaklinga til atvinnuleysisbóta geti geymst í allt að 24 mánuði. Þetta getur nýst í tilvikum þar sem sjálfstætt starfandi einstaklingur hefur staðið skil á staðgreiðslu af reiknuðu endurgjaldi og tryggingagjaldi en gjöldin sýna að laun hans sjálfs hafa dregist verulega saman síðustu mánuðina áður en hann sækir um atvinnuleysisbætur.

Frumvarpið verður lagt fyrir þingflokka á morgun.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert