Hvalur 8, sem legið hefur við bryggju í Reykjavíkurhöfn í tvo áratugi, leysti landfestar í dag. Siglingin verður þó ekki löng heldur fer skipið í slipp í Reykjavík þar sem það verður undirbúið fyrir væntanlega langreyðavertíð í sumar.
Að sögn Kristjáns Loftssonar áætlar hann að nota tvö skip við hvalveiðarnar í sumar, Hval 8 og Hval 9, sem notaður var á vertíðinni haustið 2006. Síðarnefnda skipið var þá tekið í slipp og segir Kristján að það þurfi ekki mikinn undirbúning.
Kristján segist áætla að veiðarnar hefjist í júní, en leyft er að veiða allt að 150 langreyðar á árinu. Hann sagði aðspurður, að vel yrði hægt að veiða upp í kvótann á tveimur skipum.