Íhuga tímabundið afnám eftirlitsgjalds

mbl.is

Hugmyndir eru uppi um að afnema tímabundið eftirlitsgjald sem fasteignasölum er gert að greiða til hins opinbera.

Hver fasteignasali greiðir 100 þúsund krónur á ári til að standa straum af kostnaði við störf eftirlitsnefndar Félags fasteignasala. Rúmlega 200 fasteignasalar eru starfandi samkvæmt upplýsingum á vef viðskiptaráðuneytisins. Eftirlitsgjald nemur því rúmum 20 milljónum króna á ári.

Viðskiptaráðuneytið vinnur nú að heildarendurskoðun laga um fasteignasala en ljóst þykir að það frumvarp kemur ekki til kasta Alþingis á næstunni. Í frumvarpsdrögum sem fyrir liggja eru ákvæði um breytta innheimtu eftirlitsgjaldsins. Innheimtan hefur skilað mun meiri tekjum á undanförnum árum en eftirlitið hefur kostað. Það hafa því safnast upp sjóðir vegna eftirlitsgjalds og þykir fasteignasölum gjaldtakan óréttlát.

Auk 100 þúsund króna eftirlitsgjalds er fasteignasölum gert að greiða 90 þúsund krónur á ári í félagsgjald til Félags fasteignasala og 200 til 250 þúsund krónur á ári í tryggingagjald. Gjaldheimtan nemur því tæplega hálfri milljón á ári og þykir mörgum nóg um, ekki síst í því árferði sem ríkir í dag.

Á fundi viðskiptanefndar Alþingis í morgun var rædd sú hugmynd að afnema, tímabundið að minnsta kosti, innheimtu eftirlitsgjaldsins. Það yrði þá gert í ljósi þess að til eru nægir sjóðir til að standa undir eftirlitinu.

Málið er enn á umræðustigi og því liggur ekki fyrir hvort málið verður lagt fyrir Alþingi fyrir kosningar í vor eða hvort það verður viðskiptanefndin sjálf sem leggur málið fyrir Alþingi.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert