„Það hafði verið boðaður fundur í viðskiptanefnd og skömmu síðar sameiginlegur fundur viðskiptanefndar og efnahags- og skattanefndar. Ég skildi það sem svo að um sama fund væri að ræða og mætti því bara á mína skrifstofu í morgun,“ segir Höskuldur Þórhallsson, þingmaður Framsóknarflokks.
Hann segir ekkert annað skýra fjarveru sína á fundi viðskiptanefndar en eigin misskilning.
Höskuldur segir að þegar hann hafi áttað sig á hvers kyns var, hafi hann rokið af stað og náð í blálokin á fundi viðskiptanefndar. „Ég hefði að sjálfsögðu mætt á fundinn ef ég hefði ekki misskilið fundarboðin svona. Það lágu engin annarleg sjónarmið að baki fjarveru minni,“ segir Höskuldur.