Óeðlileg samkeppni í verslun

Gylfi Magnússon.
Gylfi Magnússon.

Gylfi Magnússon viðskiptaráðherra sagði á Alþingi í dag að samkeppni í verslun hér hefði um margt verið óeðlileg á umliðnum árum. Mörg fyrirtæki eða verslunarkeðjur starfað undir hatti fárra eignarhaldsfélaga sem stæðu mörg hver mjög illa. Sagðist hann telja að þau verði ekki endurreist í fyrri mynd, heldur seld í smærri einingum.

„Við höfum um margt búið við mjög óeðlilega skipan mála hvað samkeppni í verslun og fleiri greinum varðar á síðustu árum. Í mörgum tilfellum hafa mjög mörg fyrirtæki eða verslunarkeðjur starfað undir hatti fárra eignarhaldsfélaga, sem nú standa mörg hver mjög illa,“ sagði Gylfi við umræður utan dagskrár um stöðu verslunarinnar, en málshefjandi var Ásta Möller, þingmaður Sjálfstæðisflokksins.

„Ég tel að þetta skapi ákveðin sóknarfæri í samkeppnismálum,“ sagði viðskiptaráðherra, „þannig að þegar kemur að því að greiða úr málum þessara eignarhaldsfélaga, þá verði þau ekki endurreist í fyrri mynd, heldur frekar seld í smærri einingum, sem vonandi eru þá rekstrarhæfar. Upp rísi verslunar sem verði með fleiri og smærri fyrirtækjum og þar af leiðandi meira svigrúm fyrir samkeppni. Það held ég að verði neytendum til góða og auk þess sé það sennilega besta leiðin fyrir kröfuhafana til þess að koma þessum eignum í verð, enda sennilega erfitt að fá kaupendur að einhverjum mjör stórum einingum um þessar mundir."

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert