Ráðuneytið greiddi 24 milljónir fyrir ráðgjöf

Guðlaugur Þór Þórðarson
Guðlaugur Þór Þórðarson mbl.is/Ómar

Heilbrigðisráðuneytið greiddi tæpar 24 milljónir kr. fyrir ráðgjafarstörf í verktöku á þeim 20 mánuðum sem Guðlaugur Þór Þórðarson var heilbrigðisráðherra. Fram kemur í yfirliti ráðuneytisins að stærsta einstaka fjárhæðin, rúmar 10 milljónir, var greidd fyrirtæki fyrir úttektir á heilbrigðisstofnunum og ráðgjöf vegna breytinga á skipulagi.

Guðlaugur Þór telur ljóst að núverandi heilbrigðisráðherra einbeiti sér að því að koma á sig höggi í stað þess að hugsa um heilbrigðismál enda málaflokkurinn flókinn og erfiður og ýmsar aðgerðir sem nú séu nauðsynlegar lítt til vinsælda fallnar. „Þetta er önnur atlagan sem Ögmundur gerir að mér og mínum störfum á aðeins tveimur dögum,“ segir Guðlaugur í yfirlýsingu sem hann sendi frá sér í gærkvöldi.

Ögmundur Jónasson heilbrigðisráðherra segist hafa látið athuga hvað mikið væri um aðkeypta vinnu um leið og hann kom í ráðuneytið og fór að kynna sér stjórnsýslu þess. Þessar upplýsingar telji hann eðlilegt að séu opinberar í anda gagnsærrar stjórnsýslu sem sé krafa dagsins og hann taki hjartanlega undir. Ögmundur segir að það hafi strax vakið athygli sína hvað upphæðirnar væru háar. „Ég velti því fyrir mér hvort ekki sé nær að ráða fólk til þessara starfa, ef það er mat stjórnenda að ráðuneytið sé undirmannað,“ segir Ögmundur en tekur það fram að hann telji ráðuneytið vel mannað og fullfært um að glíma við málaflokkinn á eigin forsendum.

Argyron ehf. fékk greiddar 10,7 milljónir frá því í ágúst fyrir vinnu við úttekt á tveimur heilbrigðisstofnunum, ráðgjöf vegna breytinga á skipulagi heilbrigðisstofnana og fleiri störf, samkvæmt yfirliti heilbrigðisráðuneytisins um ráðgjafarstörf í tíð síðasta heilbrigðisráðherra.

Alls var keypt verktakavinna fyrir tæpar 24 milljónir. Þrjú fyrirtæki fengu um 2,5 milljónir hvert um sig. Það voru Andi ehf. sem vann sérverkefni vegna heilsustefnu, Franca ehf. fyrir almannatengslavinnu og fjölmiðlaþjálfun forstöðumanna og Hið íslenska ráðgjafahús fyrir vinnu vegna lyfjamála.

S & G Ráðgjöf ehf. fékk greitt fyrir ráðgjafar- og sérfræðistörf, alls 1,7 milljónir kr., Rannsóknir og greining ehf. fékk tæpar 1,5 milljónir fyrir vinnu við heilsustefnu, frumvarp um Lýðheilsustöð og framtíðarskipulag stofnana. Ráðuneytið greiddi reikninga frá DP Lögmönnum og DP Fasteignum upp á 1,3 milljónir kr. fyrir vinnu við frumvarp um sjúkraskrár og frumvarp um heilbrigðisstarfsmenn. Loks vann Reykjavík Economics ýmis sérfræðistörf fyrir ráðherra, samkvæmt yfirliti ráðuneytisins, og fékk rúmar 900 þúsund kr. fyrir.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka